146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða um mengun. Kannski væri réttast að ræða þá um samfélagsmengunina sem afhjúpast í nýju bankaskýrslunni, en mál mitt snýst reyndar um annað. Í dag eru 70 ár liðin frá upphafi eins lengsta Heklugoss sögunnar. Hekla gamla hefur losað mikið af náttúrugösum út í umhverfið og sum eru miður holl. Það minnir okkur á losun af öðru tagi, hrákísilver United Silicon í Helguvík. Það hefur ekki verið til friðs og ekki nóg með það, hv. þm. Ásmundur Friðriksson fór yfir kjaramál ýmissa starfsmanna í umræðunni í gær. Það virðist pottur brotinn þar líka, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Mengun er magnþrungið orð og vekur ávallt neikvæð hughrif. Ég vil til að auðvelda störf þingsins fara yfir hvað um er að ræða hjá United Silicon. Samkvæmt losunar- og starfsheimildum losar fyrirtækið 130 þús. tonn árlega af kolefnisígildum með einum ofni af tveimur, þ.e. aðallega gróðurhúsagas sem við m.a. öndum frá okkur. Til viðbótar koma 1.700 tonn af eldfjallagasinu brennisteinsdíoxíði, álíka og fertugasti hluti þess sem losnar frá háhitavirkjunum, og um 2 þús. tonn af niturgösum, þessum brúnu sem liggja yfir Reykjavík á kyrrum degi. Losunin nemur um fimmta hluta losunar fiskiskipaflotans. Gert var ráð fyrir um 70 tonnum af ryki árlega sem getur verið bergmylsna eða ryk úr hráefninu eða kola- og koxryk, en rykhreinsibúnaður virðist ekki virka sem skyldi. Lífrænn reykur á ekki að fara yfir 250 kílógrömm á ári. Það hefur ekki gengið eftir. Snefilefni, öll heilsuspillandi, haldast innan viðurkenndra marka og hefur Umhverfisstofnun mælt að það gildir ekki um eitt þeirra, arsen, og vantar enn skýringar á ástæðunni og jafnframt skiljanlegar skýringar á öðrum losunarvanda fyrirtækisins.

Ég mun ekki leggja neinn dóm á þessa starfsemi í bili en lýsi miklum áhyggjum af augljóslega ófullnægjandi tökum fyrirtækisins á innkeyrsluferlinu. Hv. umhverfis- og samgöngunefnd mun ná fundi með ýmsum (Forseti hringir.) aðilum máls á næstu viku. Ég hvet þingheim til að vera á tánum í málinu og halda stærðargráðu þessarar loftmengunar til haga.