146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Hrokinn og yfirgangur Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi er að verða óþolandi. Grein sem fær aðgang að takmörkuðum auðlindum fyrir lágt gjald en býr samt við meiri fyrirsjáanleika en flestar aðrar atvinnugreinar heldur bæði einstökum byggðarlögum í heljargreipum og almenningi í landinu. Sjávarútvegsfyrirtæki geta svipt heilu bæina lífsafkomu og hafa nú auk þess í óbeinum hótunum við stjórnvöld: Fellið gengið, seilist ofan í vasa almennings svo við siglum áfram lygnan sjó. Ef það verður ekki gert látum við okkur bara hverfa með aflann og látum vinna hann erlendis.

Þetta eru þakkirnar fyrir nýtingarrétt á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Hagnaður sjávarútvegsins frá 2008–2014 var 242 milljarðar kr. Eigendurnir hafa greitt sér stjarnfræðilegan arð og margir hreiðrað um sig á fjármálamarkaði, tryggingafélögum, orkuiðnaði, dagblöðum og nú síðast á rándýrum húsaleigumarkaði. Sem sagt allt í kringum borðið.

Í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða segir, með leyfi forseta:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.“

Sem sagt, stuðla að sjálfbærri þróun sjávarútvegsins. Sjálfbærni er að mæta þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til að mæta þörfum sínum. Sjálfbærni byggir á þremur stoðum, efnahagslegum, umhverfislegum og samfélagslegum. Hvað gerist nú, frú forseti, ef þú tekur stól sem hvílir á þremur fótum og sagar einn af? Hann fellur. Það er heldur ekki hægt að tala um sjálfbærar fiskveiðar þegar samfélagsstoðin er svo veik og í sumum tilfellum hoggin af.

Málflutningur forsvarsmanna SFS er skýr birtingarmynd átaka milli auðræðis og virks lýðræðis í landinu. Þann slag verður almenningur að vinna.