146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sem kynnt var í morgun er afdráttarlaus um það svið sem rannsókninni var ætlað að taka til. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Við sölu íslenska ríkisins á 45,8% hlut Búnaðarbanka Íslands hf. til hins svonefnda S-hóps, þ.e. Eglu hf. og fleiri aðila, í janúar 2003 voru íslensk stjórnvöld og um leið íslenskur almenningur blekkt um þátt þýska bankans Hauck & Aufhäuser í þeim kaupum.“

Þetta eru stór orð. En reyndar hafa margir getið sér þessa til en ekki sannreynt fyrr en nú.

Hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason hefur gert athuganir sem hann taldi að sýndu að um blekkingar væri að ræða. Því var í engu sinnt heldur voru athuganirnar gerðar tortryggilegar. Spurningum Ögmundar Jónassonar um þátttöku þýska bankans í Búnaðarbankanum frá febrúar 2006 var svarað af Fjármálaeftirlitinu þá á þann veg að miðað við þær upplýsingar sem stofnunin hefði aflað sér væri ekkert sem benti til annars en að þýski bankinn hefði verið hluthafi í Eglu hf. í samræmi við veittar upplýsingar í tengslum við sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf., svo dæmi séu tekin.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um fall íslensku bankanna var fjallað um einkavæðinguna. Þar kemur fram að S-hópnum hafi verið sagt frá því í ágúst 2002 að við val á kaupanda bankans yrði gefinn plús fyrir erlenda peninga. Meintur erlendur hluthafi er kynntur til sögunnar. Samkvæmt nýju rannsóknarskýrslunni komst S-hópurinn upp með að gefa óljósar upplýsingar um erlenda eigandann og athuganir sem gerðar voru á honum voru óformlegar.

Niðurstöður skýrslunnar kalla augljóslega á frekari rannsóknir á einkavæðingu bankanna. Alþingi samþykkti slíka tillögu haustið 2012. Þeirri samþykkt þarf að fylgja eftir. Sagan má aldrei endurtaka sig.