146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. Ég ætla að taka að hluta til undir með hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni, en ég vil þó kannski láta nægja að þeir fari þá til útlanda bara kvótalausir.

Mér ofbýður það hreðjatak sem útgerðarmenn hafa á íslensku samfélagi nú og áður. Saga kvótakerfisins er saga af uppgangi kvótagreifanna og saga af hnignun byggðarlaganna. Óttinn grípur um sig með reglulegu millibili. Hvaða útgerðarmaður skyldi verða næstur til að selja kvótann burt úr byggðarlaginu og kippa stoðunum undan atvinnulífinu?

Smá upprifjun: Man einhver eftir hinum fleygu orðum, „Guggan verður áfram gul og gerð út frá Ísafirði“? Man einhver eftir útgerðarmanninum sem fékk viðurnefnið „vinalausi“? Man einhver eftir því hvernig fór fyrir útgerðinni í Hrísey, á Flateyri, í Grímsey, á Húsavík, Djúpavogi, Raufarhöfn, Þorlákshöfn? Og hugsanlega Akranesi næstu daga? Man einhver eftir útgerðarkonunni sem ásamt félögum sínum lætur sig ekki muna um nokkur hundruð milljóna tap á áróðursriti sínu? Hvar skyldi ávinningurinn liggja af því að gefa út slíkt blað? Man einhver eftir því þegar útgerðarmenn létu sigla öllum íslenska fiskiskipaflotanum til hafnar í Reykjavík í júní til að mótmæla því að þeir þyrftu að greiða sanngjarnan skerf til þjóðarinnar fyrir afnot af auðlindum hafsins, sérstakt veiðigjald? Man einhver eftir útgerðarmanninum sem hótaði að leggja niður eitt bæjarfélag eða svo ef slíkum veiðigjöldum yrði komið á? Man einhver eftir sjómönnum sem róa upp á lægri hlut en ella meðan verið er að borga nýsmíðað skip?

Svona mætti lengi telja en það þjónar engum tilgangi. Kvótakerfið er vont fyrir almenning í landinu því að arðurinn skilar sér ekki nema að litlu leyti í ríkissjóð.