146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:38]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum plagg sem á að vera eitt mikilvægasta plagg hverrar ríkisstjórnar, fyrir utan fjárlög hvers árs, sem er fjármálastefna fyrir næstu fimm árin. Það er ekki lítil ábyrgð sem felst í þessu plaggi en í því á líka að vera pólitík því að fjármálastefnan sem hér er kynnt er auðvitað pólitískt stefnuplagg eins og vera ber.

Það er ekki beysin pólitík sem hér birtist, síður en svo. Ekki er þetta pólitík sem stuðlar að raunverulegum umbótum í innviðum þjóðarinnar, sem ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu og boðuðu fyrir kosningar. Þetta er pólitík stöðnunar og framkvæmdaleysis. Grundvöllurinn að fjármálastefnu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar er veikur og mun hvorki stuðla að efnahagslegum stöðugleika né félagslegum stöðugleika eða jöfnuði.

Þessi fjármálastefna boðar hvergi alvöruuppbyggingu innviða næstu fimm árin. Hér er byggt á þeirri hugsun að auka afgang af rekstri ríkissjóðs með því að nota eignir og afgang af rekstri til mun hraðari niðurgreiðslu skulda en áður var áformað. Markmiðið um skuldaniðurgreiðslu er hátt. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2017 er gert ráð fyrir að skuldir ríkisins lækki um nálægt 130 milljarða kr. á árinu. Sú gríðarmikla áhersla sem lögð er á hraða lækkun skulda, jafnvel niður fyrir lögboðin mörk, ber miklu frekar vott um tiltekinn árangur í bókhaldi en haldgóða stefnu um samfélagslega uppbyggingu.

Gott og vel. Það er alltaf gott að stefna að því að lækka skuldir og það væri ágætt þegar aðstæður í efnahagslífinu væru ekki á þá lund að hér væri hagkerfið uppfullt af spennu og hita, húsnæðisskortur með því mesta sem hefur verið um áratugabil, svo gríðarlega hár hagvöxtur að jafna má við Indland eitt landa o.s.frv.

En verra er að áformin sem má finna í fjármálastefnunni um hraða niðurgreiðslu skulda er byggð á afar óljósri stefnu um sölu ríkiseigna og verulegri óvissu um söluverðmæti eigna í eigu ríkisins. Hin gríðarlega hraða skuldaniðurgreiðsla byggist m.a. á því að eignarhlutur ríkisins í Arion banka verði seldur. Því miður ríkir veruleg óvissa um andvirði þeirra 13% hlutafjár ríkisins í bankanum, svo það er ekki ábyrgt að byggja skuldaniðurgreiðslur m.a. á einhverju sem er ekki fyllilega ljóst hversu miklu skilar í ríkissjóð á endanum.

Eignarhlutur ríkisins í fjármálafyrirtækjum er ekkert til að fara með fleipur um eða hafa í flimtingum. Miklir almannahagsmunir eru tengdir eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum og áformum um ráðstöfun þeirra. Það eru ekki nema nokkrir dagar síðan sala á eignarhlut í Arion banka var gagnrýnd harðlega vegna ógagnsæis og óvissu um hverjir það væru sem væru að eignast meiri hluta í Arion banka og þar með þrengja verulega að stöðu ríkisins sem eiganda næststærsta hlutar í bankanum. Því verður að gera þá kröfu til stjórnvalda að þær aðgerðir sem beitt verður við söluferli á hlut ríkisins standist fyllilega kröfur um óhlutdrægni og gagnsæi en verði ekki tilefni til vantrausts, tortryggni og gruns um að hagsmunir almennings séu sniðgengnir. Ekki má undir neinum kringumstæðum leiða þessi mál til lykta án þess að Alþingi fjalli um þau.

Í umræðunni um fjármálastefnuna í gær kom berlega í ljós að ekki ríki samhugur um sölu á eignarhlut ríkisins í bönkunum. Formaður fjárlaganefndar lýsti því yfir í gær að á þessu fimm ára tímabili verði hlutur ríkisins í bönkunum seldur meðan hæstv. fjármálaráðherra hefur lýst yfir að taka verði mun lengri tíma í söluferlið.

Eins og kemur skýrt fram í umsögn Alþýðusambands Íslands við þingsályktunartillöguna um fjármálastefnuna hafa tekjustofnar ríkisins verið veiktir svo mikið á undanförnum árum að það dregur úr aðhaldi ríkisfjármálanna og minnkar verulega svigrúm ríkisins til nauðsynlegra velferðarumbóta. Í þessari fjármálastefnu, sem hæstv. fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar leggur fram, eru engin áform uppi um að nýta bætta stöðu sem lægri vaxtagjöld ríkissjóðs skapa til aukinnar almennrar velferðar. Ég legg mikla áherslu á þetta því að það er afskaplega mikilvægt, ef ekki kjarninn í fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Það eru engin áform til að nýta bætta stöðu ríkissjóðs til að skapa aukna og almenna velferð. Það er nánast þyngra en tárum taki að á yfirstandandi ári hafi verið gerðar sértækar kerfisbreytingar sem leiða til þess að tekjur ríkissjóðs lækka um 8 milljarða kr. sem bætast við þær þensluhvetjandi aðgerðir sem ráðist hefur verið í á tekjuhlið ríkisfjármálanna á undanförnum árum. Má þar nefna skuldalækkunaraðgerðir og skattkerfisbreytingar á borð við afnám auðlegðarskatts, lækkun veiðigjalda og lækkanir á tollum og neyslusköttum.

Á sama tíma og neyðarástand ríkir á húsnæðismarkaði, ungt og tekjulægra fólk á minna af eignum en það átti fyrir áratug og á mun erfiðara með að koma sér upp þaki yfir höfuðið, á meðan velferðarkerfið sem barnafólk og aðrir samfélagshópar treysta á er mun lakara hér en í þeim löndum sem við viljum og eigum að bera okkur saman við er hægri ríkisstjórnin að afsala sér tekjum upp á milljarða sem gætu svo innilega nýst til margumræddrar uppbyggingar á innviðum samfélagsins, uppbyggingar sem við höfum öll beðið eftir, hvort sem það er í menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu, velferðarkerfinu eða í samgöngukerfinu. Á meðan ekkert bólar á uppbyggingunni og hún tefst í það óendanlega, eða allavega í fimm ár samkvæmt þessari stefnu, er þá ekki skynsamlegra að fara sér hægar í niðurgreiðslu skulda og nýta tekjur ríkissjóðs einmitt til margumræddrar innviðauppbyggingar, til þess að hætta veikingu á barna- og vaxtabótakerfum og styrkja þau bótakerfi í staðinn?

Það á nefnilega ekki að nota velferðarkerfið sem helsta hagstjórnartækið hverju sinni. Það á ekki að nota velferðarkerfið til að vera aðhaldstæki í hagstjórninni í gegnum sparnað við velferðarúrbætur og innviðauppbyggingu sem ekkert bólar á. Það á ekki að spara þegar kemur að heilbrigðismálum eða velferðarmálum. Það er nóg komið í því aðhaldi.

Í greinargerð með fjármálaáætluninni er réttilega minnst á að blikur séu á lofti vegna aukinnar spennu á vinnumarkaði og húsnæðismarkaði þrátt fyrir útlit fyrir hagfelldar efnahagshorfur til næstu ára. En það eru engar lausnir boðaðar hér vegna spennunnar og óboðlegs ástands í húsnæðismálum sem festa fólk í fátæktargildru. Ekki er boðað að ríkið ætli sér að slá á þensluna og spennuna á húsnæðismarkaði, ekki er boðað að auka eigi framboð á húsnæði verulega. Húsnæðisvandi ungs fólks og lágtekjufólks er raunverulegur og aðkallandi. Það þarf að mæta þeim húsnæðisvanda með raunverulegum aðgerðum.

Jú, það er boðað að hagstjórnin verði að vera öguð. Það er rétt. En við skulum ekki afsala ríkissjóði tekjum til að skera niður á þeim hópum samfélagsins sem síst mega verða fyrir niðurskurði. Spennan á vinnumarkaðnum helst í hendur við spennuna í nánast óstjórnlegum vexti ferðaþjónustunnar sem hefur leitt til verulegrar styrkingar krónunnar að undanförnu, eða um tæp 25% frá miðju ári 2015. Sá gríðarlegi vöxtur, sem hefur réttilega verið einn af okkar bestu björgunarhringjum í hruninu, hefur rutt til hliðar öðrum útflutningsgreinum með því m.a. að þrýsta upp genginu. Útflutningsverðmæti Íslands hækkaði um 17% á árunum 2014–2016 í hlutfalli við útflutningsverð helstu viðskiptalanda sem eru ótrúlegar tölur og má að mestu leyti þakka — eða kenna um, eftir því hvernig litið er á það — hinum gríðarlega mikla vexti í ferðaþjónustu sem jókst um 44% í fyrra og hefur ríflega fjórfaldast síðan árið 2010.

Sá gríðarlegi vöxtur hefur rutt til hliðar öðrum útflutningsgreinum með því m.a. annars að þrýsta upp genginu. Svona ruðningur hefur ekkert að gera með sjálfbærni, eins og kveðið er á um að sé eitt af grunngildum fjármálastefnunnar hér. Þessi mikla spenna í hagkerfinu, eins og við upplifum núna, og of miklar sveiflur í hagkerfinu og í peningastefnunni eru nefnilega þess eðlis að þær gagnast fólkinu sem á mestar eignir og flest verðbréf. Það er ekki meiri hluti þjóðarinnar heldur á 10% Íslendinga 64% allra eigna. Þessi efsta tíund á líka nánast öll verðbréfin. Þessi tekju- og eignahæsti hópur hagnast í niðursveiflum á genginu því að þá dregst rekstrarkostnaður hans saman og þá losnar um aðrar eignir. Það er sá hópur líka sem hagnast í uppsveiflunum því að þá á hann fjármuni til að ávaxta.

Til að mæta þeim sveiflum hefði kona ætlað að í fjármálastefnunni yrðu boðaðar lausnir. Því miður eru þær lausnir fremur þunnur þrettándi. Í fjármálaáætlun fyrri ríkisstjórnar sem lögð var fram í maí síðastliðnum var aðalþunginn sagður snúa að því að láta sjálfvirka sveiflujafnara vinna sitt verk, sem hljómar í eyrum leikmanna eins og þetta eigi að leiðrétta sig sjálft. Leikmenn hafa nefnilega oft rétt fyrir sér, því að nákvæmlega þannig er það. Það er ætlast til þess að kerfið leiðrétti sig sjálft. Aðalþungi þeirrar áætlunar var að halda gjaldahliðinni stöðugri meðan aukin efnahagsumsvif ykju tekjur ríkissjóðs og sköpuðu meiri rekstrarafgang af sjálfu sér.

Í áliti fjármálaráðs við fjármálastefnuna er bent á að stefnan varðandi þetta sýnist óbreytt. Það vekur athygli fjármálaráðs að í reynd hafi hin sjálfvirka sveiflujöfnun verið veikt undanfarin ár með aðgerðum á tekjuhlið fjárlaga. Með því að afsala sér tekjum hafi hægri ríkisstjórnin hin fyrri, og enn hægri ríkisstjórnin hin síðari tekið undir, ekki bara veikt innviðina heldur líka veikt hina sjálfvirku sveiflujöfnun. Auk þess veiki markmið fjármálastefnunnar um að útgjöld og tekjur þróist sem fast hlutfall af landsframleiðslu þessa sveiflujöfnun.

Frú forseti. Það er kristalskýrt að það þarf að styrkja tekjustofna ríkisins ef treysta á félagslegan stöðugleika í íslensku samfélagi, ekki veikja þá. Meira er af aðkallandi verkefnum í samfélaginu en svo að við getum leyft okkur að afsala okkur tekjum sisvona. Til hverra erum við að afsala okkur tekjum? Jú, til þeirra sem best búa í íslensku samfélagi. Með styrkjum til útgerðarfyrirtækjanna og með skattastyrkjum til ferðaþjónustunnar. Það á bara ekki við núna. Það er óábyrg hagstjórn að búa svo um hnútana að afla ekki nægra tekna, að þegar dregur úr umsvifum og þenslu verði óumflýjanlegt að skera niður. Hvar verður þá skorið niður? Það verður skorið niður í kostnaðarþyngstu kerfunum. Það verður skorið niður í velferðarkerfinu og heilbrigðiskerfinu, því að það er ávallt það fyrsta sem mætir niðurskurði hægri stjórna. En sá yfirvofandi niðurskurður samræmist varla grunngildum fjármálastefnunnar sem hér er kynnt, sem eru sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki og gagnsæi. Það er því miður fjarri.

Einn helsti veikleiki fjármálastefnunnar er, eins og bæði fjármálaráð og Alþýðusamband Íslands benda á í umsögnum sínum, að ekki er lagt mat á tekjur og útgjöld hins opinbera að teknu tilliti til hagsveiflunnar. Það er ekki að finna neina sundurliðun á afkomu hins opinbera í frum- og fjármagnsjöfnuð né heldur upplýsingar um sértækar tekju- og útgjaldaaðgerðir eða leiðréttingar á áhrifum hagsveiflunnar á afkomu hins opinbera. Þetta gerir að verkum að raunverulegt aðhaldsstig opinberra fjármála er óljóst. Það er erfitt að álykta hvort afkomumarkmiðið sé nægilega aðhaldssamt til að viðhalda stöðugleika.

Það er hægt að hafa réttmætar áhyggjur af því að hér séu ýmsar forsendur fjármálastefnunnar fyrir næstu fimm árin svo veikar að efasemdir eru um að þær haldi. Það er slæmt, svo ekki sé kveðið fastar að orði, því að eins og segir í lokaorðum fjármálastefnunnar er brýnt að það ríki trúverðugleiki um stefnumörkunina þegar kemur að ríkisfjármálum, þegar kemur að stefnumörkun um ríkisfjármál, sem eru fjármál okkar allra. Ekki bara ákveðins hóps í samfélaginu eða ákveðins hóps ráðamanna. Ég tek undir það að trúverðugleiki verði að ríkja. En hér eru grunnur og forsendur stefnunnar svo veikar og byggðar á svo óljósum markmiðum að þessi trúverðugleiki er löngu fokinn út í hafsauga. Við það getum við ekki búið. En því miður er það raunveruleikinn. Það er staðreyndin sem kemur fram í þessari fjármálastefnu, sem er eitt mikilvægasta plagg hverrar ríkisstjórnar fyrir sig og er stefnumótandi og stefnumarkandi fyrir næstu fimm árin.

Við verðum að hafa trúverðugleika að leiðarljósi þegar kemur að því að mynda grunninn að viðlíka plaggi og þetta er.