146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum aftur fyrir hennar góðu orð um bankasölu. Ég held að við séum alveg sammála um það. Það mál sem hér er nefnt og við fengum þykka skýrslu um í okkar pósthólf núna áðan sýnir að það þarf að vanda sig afar vel. Menn hafa ekki staðið sig að því leyti á sínum tíma. Hvað það þarf að taka langan tíma að selja þessa hluti veit ég ekki. En ég held að þegar það verður gert eigi að gera það með þessum hætti. Þegar ég stóð hér um daginn og lýsti því yfir að það væri ekkert sérstakt sem ég hefði gert, hvorki til þess að reyna að selja þennan hlut né hafi nokkur haft samband við mig og óskað eftir að kaupa þennan hlut, þá er það þannig. Ég tel að þegar við förum með þetta í söluferli sé mikilvægt að allir hér á Alþingi verði upplýstir um það og það verði gert þannig að ekki verði hægt að segja að hallað hafi á einhvern hugsanlegan kaupanda. Ég er þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að þessir bankar, sem eru reyndar ekki umræðuefni dagsins en ég nefni þetta vegna þess að þetta hefur komið upp, fari í dreifða eignaraðild og verði ekki misnotaðir með þeim hætti sem gerðist hér fyrir hrun.

Ég vil hins vegar víkja örlítið að niðurgreiðslu skulda sem er reyndar aðeins annað en að skapa svigrúm til að lækka vexti Seðlabankans, sem ég held að sé líka mikilvægt. Með því að við greiðum niður skuldir á þeim árum þegar hér er góðæri þurfa komandi kynslóðir ekki að borga niður þessar sömu skuldir. Við erum að skapa rými í framtíðinni til þess að hægt sé að verja meiru til þessara ágætu mála sem við hv. þingmaður erum sammála um að þurfi að gera.