146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:08]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Hv. þingmaður kom inn á þennan mikla vöxt í ferðaþjónustunni sem skapar vissulega gríðarlega spennu. Eins og ég rakti hér áðan, 44% aukning á tveimur árum í útflutningi sem ryður öllum öðrum útflutningsgreinum til hliðar og þrýstir upp genginu. Það er áhyggjuefni að ekki séu gerðar raunverulegar ráðstafanir til að minnka þessi þensluáhrif í þessari fjármálastefnu. Þessum gríðarlegu þensluáhrifum væri hægt að mæta með hæfilegri skattlagningu á ferðaþjónustuaðilana, hvort sem er á bílaleigur eða komugjald eða hvers konar hugmyndir þar að lútandi, ég held að það væri lag. Um margra ára skeið hefur verið talað um, og meira að segja er kveðið á um það í sáttmála ríkisstjórnarinnar, að stofna sveiflujöfnunarsjóð. Ég hef ekki séð neinar hugmyndir þar að lútandi. Ég hef ekki séð það á teikniborði hæstv. fjármálaráðherra. Norðmenn eru með sinn olíusjóð til að koma til móts við þessar sveiflur en engar hugmyndir er að finna um það hér eða annars staðar. Það verður áhugavert að sjá það þegar skýrari mynd kemur á þær hugmyndir.