146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:39]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir mjög skelegga ræðu hér áðan. Það sem ég hjó eftir í ræðu hv. þingmanns var uppbygging innviða og þá sér í lagi á landsbyggðinni. Ég sé að í greinargerð með fjármálastefnunni er talað um að sýna töluvert mikið aðhald í fjárfestingu. Hér stendur að sama skapi, með leyfi forseta:

„Erfitt er hins vegar að beita æskilegu aðhaldsstigi hjá þessum fyrirtækjum“ — og þá er verið að tala um opinber fyrirtæki eins og Isavia, hugsa ég — „á allra næstu árum þar sem mikil þörf hefur myndast fyrir uppbyggingu í innviðum, til að mynda á sviði flugsamgangna og orkumiðlunar, auk þess sem ljúka þarf við verkefni í orkuöflun sem þegar eru hafin. Ákvarðanir um nýjar fjárfestingar þarf að byggja á skýrum arðsemisforsendum og þær þarf að tímasetja með hliðsjón af efnahagshorfum.“

Nú höfum við séð mikla uppbyggingu og mikla uppbyggingarþörf á flugvellinum í Keflavík sem Isavia hefur verið í forsjá fyrir. Mig langar að spyrja hv. þingmann, þar sem hún er landsbyggðarþingmaður af Vestfjörðum, hvort við séum að setja öll eggin okkar í sömu körfu. Þarna á mikil uppbygging sér stað, t.d. á flugvellinum, upp á marga milljarða og það eykur þenslu. Væri betra að hægja aðeins á uppbyggingunni þar og flýta því að laga vegina á sunnanverðum Vestfjörðum, brúa ár aftur þar sem eru einbreiðar brýr og hægja aðeins á þessari hröðu uppbyggingu, sem vissulega hefur verið nauðsynleg, þ.e. ef við þurfum að fara í einhvern svona jafnvægisleik? Við horfum fram á það að eina fluggáttin til Íslands, sem er að einhverju ráði notuð, leiðir til þess (Forseti hringir.) að allt annað situr einhvern veginn á hakanum. Mig langar til að heyra viðbrögð hæstv. þingmanns varðandi það.