146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:42]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ýmislegt væri hægt að gera, held ég, til að beita tækjum ríkisins til að jafna þessa þenslu eða dreifa henni út, þannig að hún verði ekki eingöngu á suðvesturhorninu; hv. þingmaður nefndi einmitt þessa miklu uppbyggingu hjá Isavia á Keflavíkurflugvelli. Ég tel að hægt sé að gera ýmislegt í því að nýta fjármuni til að byggja upp þessa margumtöluðu innviði eins og flugvelli vítt og breitt um landið. Úti á landi eru flugvellir, bæði á Egilsstöðum og Akureyri, sem geta sinnt millilandaflugi. Leggja á mikla áherslu á að þeir byggist upp. Það er allra hagur að fleiri leiðir séu nýttar inn í landið. Við horfum fram á gífurlegan fjölda ferðamanna sem við erum ekki tilbúin til að taka á móti, en gerum samt. Það er ekkert annað í boði. Við ættum líka að horfa til þess, eins og hv. þingmaður nefnir, að hraða átaki í því að ljúka við slitlag á öllum vegum landsins. Þetta er ekki boðlegt að enn séu eftir stórir kaflar þar sem ekki er slitlag. Það er hörmulegt til þess að vita að ekki sé verið að gera neitt alvöruátak í því á næstu fimm árum. Hversu lengi á fólk að búa við slíkar aðstæður? Þegar atvinnulíf er aðeins að hressast við þá leggur ríkið ekkert til með heimamönnum til að bæta samgöngur inn á svæðið. Auðvitað ætti að vera hægt að stýra fjármunum ríkisins á þann hátt að uppsveiflan nýtist. Enginn veit hve hún varir lengi. Það verður ekki endilega 7% hagvöxtur næstu árin. Það er ekki sjálfgefið.