146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:46]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ekki er mikið um samfélagslega hugsun í þessu frumvarpi, eins og hv. þingmaður nefnir. Ég er henni hjartanlega sammála um að ekki á að reka allt út frá arðsemissjónarmiðum. Til lengri tíma er líka hægt að horfa á hlutina út frá því sem er þjóðhagslega hagkvæmt. Við erum þjóð. Við erum ekki bara einstaklingar sem ætlum að græða og græða, hver einstaklingur, og gefa lítið fyrir það hvernig þetta samfélag byggist upp. Við erum samfélag. Ríkissjóður er ríkissjóður þessa samfélags. Þess vegna er það skylda þess sem heldur utan um ríkisfjármálin, og skylda okkar sem alþingismanna, að hugsa um heildina sem samfélag. Sumt er arðbært, sumt er það ekki. Auðvitað eigum við að nýta það sem er arðbært til að jafna kjör og jafna út ýmsu sem við getum jafnað út til að ná betri nýtingu á ýmsum fjárfestingum í landinu. Það eru miklar fjárfestingar, bæði í eigu opinberra aðila og líka einkaaðila, út um allt land sem eru ekki vel nýttar, eru vannýttar. Það er þjóðhagslega hagkvæmt að nýta þær eignir miklu betur. Það er hægt að reikna það út í excel-skjölum til lengri tíma að það sé þjóðhagslega hagkvæmt. Það er ekki endilega þjóðhagslega hagkvæmt að skilja allar þessar eignir eftir og láta þær níðast niður, grotna niður vítt og breitt um landið, eignir í opinberri eigu, og innviðina, eins og samgöngur og annað, svo að almenningur telji best að flytja hingað á höfuðborgarsvæðið. Það er ekkert þjóðhagslega hagkvæmt, hjá 330 þús. manna þjóð, að stærstur hluti hennar sé hér á höfuðborgarsvæðinu. Við erum með fjárfestingar vítt og breitt um landið sem við eigum að nýta miklu betur. Það er þjóðhagslega hagkvæmt. Það er þessi ríkisstjórn ekki að nýta sér.