146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:04]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Ég er sammála því, þetta er pólitík. En eins og ég sagði er þetta líka tilraun til að taka pólitíkina úr pólitíkinni, sem er rosalega skrítið, þá verður ekkert eftir. Við erum að ræða húsnæðismál og gatnagerðarmál og öll þessi mál einmitt vegna þess að það er það sem liggur samfélaginu til grundvallar, það er ekki eins og skuldastaða ríkissjóðs liggi samfélaginu til grundvallar.

Til að svara hv. þingmanni: Nei, það er ekki nokkur séns að hægt verði að standast þessi áform, hvort sem er í uppbyggingu á samgöngukerfinu eða í uppbyggingu húsnæðis, út frá þessari stefnu. Ég segi það og vil rökstyðja það með því að gengið er út frá því að það verði afgangur; afgangurinn verði 1% til að byrja með og fari upp í 1,6% af vergri landsframleiðslu. Við vitum að skuldastaðan er frekar há, en aukning á vergri landsframleiðslu fer minnkandi næstu ár. Það þýðir að erfiðara verður að ná 1,6% af vergri landsframleiðslu í afgang, það þýðir það. Ef við skoðum hvað það þýðir í praxís þá þýðir það meiri niðurskurð, sem er ekkert í lagi.

Hvernig ætlar hæstv. ríkisstjórn að bregðast við þessu? Það fer tvennum sögum af því. Hv. þm. Haraldur Benediktsson segir að selja eigi bankana og fjármagna eitthvað með því. En hér segir að það eigi allt að fara í lækkun á ríkisskuldum. Er hægt að ná þessu tvennu samtímis? Ég hef ekki hugmynd um það. Mér sýnist ekki.