146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:11]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég kannast ekki við þá tölu, en þetta er áhugaverð tala í samhengi við frumvarp sem lagt var fram af þremur hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins um afnám lágmarksútsvars, vegna þess að þessi mál tengjast nefnilega frekar sterkum böndum. Sama hversu mörg sveitarfélögin eru sem eru með skuldir yfir 150% þá eru þau ekki rosalega mörg sem eru undir þeim viðmiðunarmörkum sem almennt gengur og gerist. Skuldamál sveitarfélaga eru alveg rosalegt áhyggjuefni. Hvað varðar orðanotkunina hefði kannski verið skynsamlegra að skrifa einhverja tölu frekar en að nota orðið „örfá“. Mér dettur í hug orðið tungumálið pirahã sem talað er einhvers staðar í Brasilíu. Í því eru engar tölur, bara hugtök fyrir mikið og lítið og það er mjög óljóst milli manna hvað telst mikið og hvað telst lítið.

Ég held að við séum komin í pirahã-íska orðanotkun hérna. Ég hef ekki betri svör en hv. þm. Gunnar Ingiberg Gunnarsson um þetta.