146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:14]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni hans ræðu, sem var afar athyglisverð. Ég ætla að fá að halda mitt andsvar á þingmálinu íslensku ef hann er til í samræður um tungumál í fjarlægum heimum, sérstaklega án töluorða, því að mér finnst orð skemmtilegri en tölur. Mig langar aðeins að eiga orðastað við hv. þingmann um það sem hann kom inn á og ég heyrði líka hér í gær undir miðnætti þegar við ræddum býsna alvarlega hluti eins og það hvort þessi lög um opinber fjármál stæðust einfaldlega sjálfa stjórnarskrána.

Nú veit ég að hv. þingmaður er mikill áhugamaður um stjórnarskrármál og þekkir þau vel. Skil ég það rétt að úr orðum hv. þingmanns megi lesa að hann líti svo á að Alþingi sé ekki bundið af þeirri fjármálastefnu til fimm ára sem hér verður samþykkt? Ástæðan fyrir því að ég spyr er sú að án þess að vera mikill spámaður þykist ég vita hver söngurinn verður þegar farið verður að tala fyrir meiri útgjöldum. Það verður vísað í þennan ramma, vísað í að hendur Alþingis séu bundnar og ég tala nú ekki um eftir að fjármálaáætlunin kemur fram nú á næstu dögum, þannig að hv. þingmenn geti lítið sem ekkert gert innan þessa ramma. Ég deili þeim skoðunum hv. þingmanns, ef ég les rétt út úr orðum hans, að það stangist á við stjórnarskrána og fjárveitingavald Alþingis. Mig langaði að biðja hv. þingmann um að koma aðeins betur inn á það.