146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:44]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Hildi Sverrisdóttur fyrir andsvarið og spurninguna. Ég held að það skipti í rauninni ekki öllu máli hvað við segjum hér inni um innviðina varðandi það hver upplifun almennings er á því. Ég held að almenningur í þessu samfélagi upplifi það og skynji í sínu daglega lífi að ekki hafi verið sett nægjanlegt fjármagn í innviðina á síðustu árum. Líkt og ég fór yfir í ræðu minni var staðan sú fyrir hrun að ekki voru settir nægir peningar í velferðarkerfið og á árunum eftir hrun voru vitaskuld ekki settir nægir peningar í innviðina af því að þeir voru ekki til, þótt reynt væri að forgangsraða.

Svo núna á síðasta kjörtímabili þegar peningarnir voru til eða hefðu í það minnsta getað verið til, var það ekki heldur gert. Ég held að staðan sé einfaldlega þannig að allir finni fyrir því hversu veikir innviðirnir eru orðnir alveg óháð því hvað við segjum hér eða tölum um. Þótt við séum mikilvæg og skemmtileg og skiptum auðvitað máli, og hin pólitíska umræða skiptir auðvitað máli, þá held ég að þetta sé ekki veigamikið atriði í því. Líklega má finna einhvern stað þar sem nægir peningar eru. Þegar við skoðum hins vegar þessa stóru liði eins og samgöngumálin, velferðarmálin, heilbrigðismálin og menntamálin, hélt ég að allir hefðu verið sammála í kosningabaráttunni um að þá (Forseti hringir.) innviði þyrfti að styrkja. Mér finnst það ekki hafa breyst eftir kosningar. Það breyttist ekki eftir kosningar. Ef það þurfti að styrkja þessa innviði (Forseti hringir.) fyrir kosningarnar (Forseti hringir.) þá þarf auðvitað líka (Forseti hringir.) að gera það eftir kosningar.