146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:51]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að ræða þessi mál aftur enda eru þau brýn. Ég verð að byrja á að grípa upp það sem átti sér stað í andsvörum. Við í fjárlaganefnd fengum ágætisminnisblað um skuldir og vaxtagjöld ríkissjóðs og þróun og samsetningu heildarskulda. Þar er kafli sem ber yfirskriftina: Þróun vaxtagjalda ríkissjóðs. Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að það sé dyggð og kostur að greiða niður skuldir hef ég haldið því fram að við ættum að fara hægar í það, m.a. vegna þess að það kostar líka sitt að fresta uppbyggingu innviða eins og gert var allt síðasta kjörtímabil. Í ljósi þess að hér var hagsveifla og heldur áfram, og í ljósi þess að ágætlega hefur árað, tel ég að það hafi verið mistök að fara jafn hratt í niðurgreiðslu skulda og gert hefur verið. Hér kemur fram, með leyfi forseta, og það er eitt af því sem er mikilvægt út af samsetningu lána:

„Vextir óverðtryggðra ríkisbréfa eru allt frá 5% upp í 8,75%.“ — Mjög háir vextir. — „Vextir verðtryggðra bréfa eru á bilinu 3–3,8%. Vextir á skuldabréfaútgáfu í Bandaríkjadölum eru tæplega 6%, af láni sem var tekið árið 2012, og vextir á evruskuldabréfum ríkissjóðs eru um 2,5% af láni sem var tekið árið 2014. Bæði lánin eru með föstum vöxtum og eru óuppgreiðanleg. Ef ríkissjóður hefði áhuga á að leysa til sín hluta af þeim útgáfum þarf að kaupa þær til baka á markaðsvirði.“

Þetta þýðir að við greiðum ekki beint niður það sem er okkur hvað óhagkvæmast og dýrast og getum illa ráðið við það. Auðvitað er þá gott, þegar kemur að stóru skuldadögunum á næsta ári og síðar, að geta verið búin að búa í haginn með niðurgreiðslu að einhverju leyti. Það breytir því ekki að ég er þeirrar skoðunar að það sé allt of dýrt að fresta uppbyggingu innviða eins og gert hefur verið — og mér sýnist, miðað við þessa ríkisfjármálastefnu, að eigi að gera áfram — nema ef þeir verða hólfaðir sérstaklega niður. Mér finnst maður æ oftar heyra það í umræðunni að fara eigi í uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu, sem er vel. Einhvern veginn virðist hitt vera sett til hliðar, sem þó hefur verið rætt töluvert bæði úti í samfélaginu og hér á þingi, þ.e. þeir milljarðar sem eiga að fara í stofnframlög vegna húsnæðismála sem félagsmálaráðherra hefur fullyrt að staðið verði við og tengdust kjarasamningagerð og svo uppbyggingu í vegakerfinu, svo að það sé tiltekið hér.

Mér sýnist, miðað við þessa stífu áætlun sem lokuð er inni til næstu fimm ára, að þetta geti orðið verulega erfitt. Við vitum, og það kemur fram í áliti fjármálaráðs og ASÍ og hjá fleirum, að hlutur tekjuskatts í fjáröflun ríkisins í tíð síðustu ríkisstjórnar var veiktur, þ.e. þriggja þrepa kerfið varð að tveggja þrepa kerfi. Ekki var ákveðið að halda áfram með innheimtu auðlegðarskatts eða annað slíkt. Peningastefnunefnd Seðlabankans ítrekar að þessar aðgerðir hafi ekki stutt við peningastefnuna. Þar að auki komu þessar ráðstafanir þeim skattgreiðendum einum að gagni sem voru sæmilega vel haldnir með tekjur. Tekjujöfnunaráhrif tekjuskattsálagningarinnar voru fyrir bí með þessu.

Forsætisráðherra, sem er ekki lengur fjármálaráðherra, boðar á fundi í dag lækkun virðisaukaskatts. Það þýðir væntanlega samt hækkun á einhverju. Við erum jú með tvö þrep, 11 og 24%. Mér þykir líklegt — þar sem það hefur áður verið viðrað af hans hálfu í þinginu að hafa þetta hlutfall í kringum 19%, að það þyrfti að vera það — að það komi til með að skipta gríðarlega miklu máli hverjar mótvægisaðgerðirnar verða. Ef maturinn fer í 19% virðisaukaskattsþrep, ef við gæfum okkur að það yrði niðurstaðan, greiða allir sama hlutfall hvað það varðar, hvort sem þeir búa vel eða ekki, þ.e. án tillits til tekna eða efnahags. Sú skattbyrði mun þá leggjast mun þyngra á þá sem minna hafa en þá tekjuhærri eins og eðlilegt er, við fáum jú matinn á sambærilegu verði. Ég sé ekki fyrir mér hvernig þær mótvægisaðgerðir gætu litið út. Í tíð síðustu ríkisstjórnar var það ekki gert nema að mjög takmörkuðu leyti, þ.e. gagnvart þeim sem minnst höfðu.

Tollar og vörugjöld voru felld niður en mér finnst það ekki hafa skilað sér nema að afar litlu leyti til neytenda. Það veikti hins vegar peningastefnuna og efnahagskerfið. Áður en farið verður í frekari breytingar í þessa átt væri skynsamlegt að láta taka það út hvort þetta hafi skilað sér til neytenda með beinum hætti. Allt þetta veikir þær forsendur sem hér eru undir.

Hér hefur líka verið rætt um að leggja skatta á ferðaþjónustuna. Helst hefur verið rætt um bílastæðagjöldin, ekki hefur margt annað verið viðrað. Það hefur reyndar aðeins komið til tals að setja gistináttaskatt. Mig minnir að það hafi verið sjálfur ráðherrann sem sagði í gær að hann gæti séð það fyrir sér að hann renni til sveitarfélaganna. Það væri náttúrlega vel. En það þarf að gera miklu meira en að ræða um það, það þarf að láta hendur standa fram úr ermum. Það yrði þá partur af samkomulagi ríkis og sveitarfélaga sem ekki hefur verið gengið frá að fullu.

Ég hef töluverðar áhyggjur af því að þetta gangi ekki eftir. Það er talað um eftirspurnarþenslu. Við þekkjum að það getur hrundið verðbólgu í gang og viðskiptahalla við útlönd og þetta sem gert var, eins og ég rakti áðan, á síðasta kjörtímabili studdi ekki við það. Hvað þá ef fólk ætlar að fara í eitthvað slíkt áfram núna.

Forsætisráðherra nefndi að tryggingagjald yrði lækkað á kjörtímabilinu. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra talaði líka um það, þegar hann ræddi fjármálastefnuna og mælti fyrir henni, að lækka tryggingagjald. Ég hvet bæði formann fjárlaganefndar og aðra til að hugleiða það aðeins. Það var lækkað um 0,5% í tengslum við kjarasamningana á sama tíma og Fæðingarorlofssjóður er ekki tryggur til nánustu framtíðar ef áform ganga eftir um þann útgjaldaauka sem þar er undir, sem bæði varðar lengingu á fæðingarorlofinu og hækkun á þakinu. Mér finnst mjög margt vera að koma fram úti í samfélaginu en ekki endilega hér á þinginu, af hálfu ráðherranna, sem ekki styður við það sem hér er lagt fram.

Fjárlaganefnd fór í heimsókn til Ríkisendurskoðunar og Fjársýslunnar í morgun. Ég vil aðeins fara ofan í það hvers vegna við höfum áhyggjur af þessari stefnu. Við höfum áhyggjur af því að hún sé lokuð inni á þann hátt sem hér er gert, þ.e. með útgjaldaþaki og skuldaviðmiði; hún er lokuð allan hringinn. Svo er það aðkoma þingmanna sem við höfum rætt töluvert og ástæða er til að hafa áhyggjur af. Mér finnst að niðurstaða þurfi að fást í það samtal. Umboðsmaður Alþingis hefur lýst áhyggjum sínum við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og ríkisendurskoðandi tók undir það í morgun. Sú stofnun og fleiri hafa líka lýst því yfir að ef til vill þurfi að fara ofan í þetta verklag, að fólk hafi ekki endilega séð það fyrir, þegar það sat við að semja lögin, hvernig margt af því sem þarna er undir kæmi út í praxís. Það er eitthvað sem við þurfum að reyna að átta okkur á, hvort við teljum að gera þurfi breytingar nú þegar eða hvort við ætlum að láta þetta ár líða og ganga í gegnum það alveg til enda og taka svo á því á næsta ári. Eða hvað?

Við höfum mikið rætt aðkomu þingmanna, m.a. vegna þess að okkur finnst mörgum hverjum gagnsæið ekki vera til staðar, ekki í tengslum við stefnuna núna, að hún nái utan um áætlunina. Og þó að við fáum málefnasviðin á föstudaginn í gegnum áætlunina þá geti líka verið erfitt að átta sig á niðurbrotinu sem kemur ekki í ljós fyrr en við fjárlagagerðina. Þá er spurning hver aðkoma fjárlaganefndar eigi að vera frá áætlun og fram til fjárlaga. Á hún að vera einhver? Á þetta alfarið að vera ráðuneytisplagg? Þá þurfum við að horfa til þess að við verðum væntanlega að afgreiða áætlunina undir lok þings. Það er ekki ósennilegt að það verði úr, í lok maí, á því tímabili. Þá er þingið að fara í leyfi. Það er í leyfi fram í miðjan ágúst þegar kalla má nefndir saman aftur. Ég velti þessu fyrir mér: Þýðir það breytta vinnufyrirkomulag að við höfum ekki aðkomu nú frekar en áður?

Frumvarpið hefur jú alltaf komið ofan úr ráðuneyti og frá ráðherra. Þá höfum við heldur ekki nein áhrif á þessa skiptingu fyrr en þetta er orðin staðreynd. Er það eitthvað sem við viljum? Eins og við þekkjum hefur sundurliðunin ekki gildi sem lögformlegt plagg að öðru leyti en sem fylgirit, hún er ekki þingskjal í merkingu þess orðs. Þess vegna vorum við í flækju með það þegar við reyndum að gera breytingar á því í desember. Það er eitt af því sem við verðum að fá úr skorið, þ.e. hvernig við eigum að gera það. Ég held að það sé alveg tært. Við erum búin að átta okkur á að ráðherrar taka það mismikið til sín, það sem ekki var tíundað í greinargerð, virðast ekki álíta að þeim beri að fara eftir því o.s.frv. Þrátt fyrir að vilja hafi verið lýst hér í þinginu, jafnvel í álitum og í orðræðu, virðist það sem ekki kom beinlínis fram í texta ekki vera tekið með. Þetta er eitthvað sem við getum ekki beðið með, við getum ekki látið árið líða að öllu leyti að mínu viti. Ég held að það sé margt sem við þurfum að huga að.

Ég hefði líka viljað koma inn á margt annað í ljósi þeirra fregna sem bárust í dag, um skýrsluna um Búnaðarbankann, m.a. vegna þess að við stöndum frammi fyrir því að selja bankana sem töluvert hefur verið rætt í þessari umræðu. Þrátt fyrir að hæstv. fjármálaráðherra segi að það byggist ekki allt á sölu bankanna, heldur telji hann að hann geti gengið út frá tilteknum arði í staðinn ef honum ekki tekst að selja þessar stofnanir, held ég að skýrsla dagsins í dag hljóti að marka þau spor að við getum með engu móti annað en gengið úr skugga um og tryggt gagnsæi í eignarhaldi, að yfirvöld verði ekki blekkt. Því hver á að gæta hagsmuna fólksins í landinu? Það klikkaði í þessu samhengi hjá Búnaðarbankanum. Ég held að það sé ljóst að við þurfum að vera með það á hreinu hver á að sjá um það í því ferli sem fram undan er.