146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:08]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er auðvitað heilmargt sem við erum nú þegar að læra. Í fyrsta lagi verðum við að segja að þó að stefnan og áætlunin hafi verið sett fram á síðasta ári var það í sjálfu sér pínulítið skrýtið þegar ljóst var að kosningar væru fram undan og ríkisstjórnin færi frá. Ég held t.d. að meðan að við erum að læra myndi ég vilja hafa stefnuna opna meðfram áætluninni, eins og gerðist síðast, ég held að það væri gott. Þá sæjum við hvort hún rúmaði það sem hún þarf að rúma eða ekki. Ef ekki gætum við sagt: Þessi stefna gengur ekki upp. Það er hluti af gagnsæinu. Því þetta er mjög ógagnsætt, þessar prósentur af vergri landsframleiðslu sem stefnan byggir á.

Varðandi nefndirnar, tímalínuna og hvaða verkefni detta inn og út og áhrif okkar á forgangsröðun, hvar og hvenær, mér finnst við verða að reyna að fá fram hvernig við ætlum að gera það. Ég held að það sé mikill vilji fyrir því í nefndinni. Formaðurinn er mjög opinn fyrir því að reyna að bæta þessa annmarka. Ég held að við ættum að geta náð einhvers konar samstöðu um það. Núna snýst þetta um það hvort það þarf að líða heilt ár undir þessum formerkjum, leyfa þessu að ganga í gegn einu sinni, eða hvort við viljum breyta strax. Ég held að sumu þurfum við að breyta strax eins og ég nefndi.

Ég tel að við eigum að geta haft áhrif á forgangsröðunina. En það er spurning með t.d. þær breytingar sem við gerum í gegnum fjárlagafrumvarpið í desember. Þá á þarf að uppfæra fylgiskjalið. Þá er spurning hvort það verði lagt fram kannski í janúar með þingsályktunartillögu eða einhverju slíku þannig að það hafi einhverja stöðu og breytingin sé (Forseti hringir.) samþykkt formlega. Hún er kannski samþykkt í sjálfu sér að einhverju leyti í desember en hún kemur samt ekki fyrr en síðar.