146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:11]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er áhugavert, einmitt þessi tæknilega útfærsla á fylgiritinu. Þetta er mjög snúið mál hvað varðar forgangsröðunina, hvort við getum haft áhrif á hana og við vitum í raun ekki hvernig við eigum að gera það. Það var okkar ályktun í desember sl. að við gætum sett hin og þessi fyrirmæli í greinargerð en það er mjög óljóst. Það er einnig mjög óljóst hvaða upplýsingar við komum til með að fá með fjármálaáætluninni. Fáum við bara heildarsummu fyrir málefnasvið og stingum svo puttanum upp í loft og giskum á hvað er innan þeirra? Þegar kemur að fjármálaáætluninni og mismuninum síðan í fjárlögum þá viljum við sjá hvað heldur sér úr áætlun yfir í fjárlög. Við viljum geta haft áhrif á það og einhverja hugmynd um hvernig við getum sett eitthvað þar inn: Nei, við setjum aðeins meira í þetta málefnasvið af því að það hefur áhrif á þessi og hin verkefni. Svo viljum við sjá það endurspeglast í fjárlögum þegar kemur að þeim. Ef við fáum bara heildarsummu fyrir málefnasvið og að stórir málaflokkar verða svo og svo háir, og það verða síðan breytingar á því í fjárlögum þá vitum við ekkert af hverju. Þá líður mér eins og við séum bara stimpilstofnun sem gerir það sem ráðherra segir og það fer einfaldlega gegn stjórnarskránni. Þá sinnir Alþingi ekki stjórnarskrárbundinni vinnu sinni um upplýst ferli fjárlaga og að hafa stjórn á fjármálum Íslands.