146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:13]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum aftur andsvarið. Ég held að það sem við stöndum frammi fyrir núna sé þetta: Nú eru nefndirnar í fyrsta sinn að fjalla um þetta með þeim hætti sem þær hafa ekki gert áður. Við fáum sviðin í gegnum áætlunina, það er stóri pakkinn. Svo kemur að málaflokkunum og það ætti að gefa nefndunum færi á að kalla til sín held ég fleiri en bara ráðuneyti. Ég held að þær þurfi að kalla til sín allar stærstu stofnanir ef það á að vera einhver alvara á bak við þessa vinnu. Þess vegna held ég að tíminn sé allt of knappur sem er ætlaður í þetta.

Hvað heldur sér þegar við komum að fjárlögunum? Það er okkar að fylgja því eftir og þá líka nefndanna því að við í fjárlaganefnd fáum svo fjárlagafrumvarpið í fangið. Þá þurfum við að vera í góðum takti og samspili við okkar nefndarfólk. Það hefur gerst í gegnum tíðina að við höfum sett fé í tiltekna málaflokka og ekki haft bein áhrif á það hvernig því hefur verið úthlutað. Til dæmis framhaldsskólarnir, úthlutun fer fram samkvæmt reiknilíkani. Það eru einhverjar slíkar stofnanir sem við höfum haft minni áhrif á en við höfum hins vegar getað sagt að við ætlum að bæta við auknu fé til Háskóla Íslands eða til framhaldsskóla eða Hólaskóla eða eitthvað slíkt. Við höfum getað gert það. Núna er hugmyndin sú eins og við þekkjum að við setjum bara 10 milljónir, 15 eða 100 milljónir í viðbót inn í málaflokkinn með einhverju fororði um að við viljum að það skiptist svona. Það er kannski þetta sem við þurfum að finna betur út úr, af því að við vorum beðin um að tíunda þetta ekki í greinargerð í desember, hvort það er það sem þarf eða hvort við getum brotið þetta niður á númeraröð í málaflokkunum.