146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:15]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hún talaði svolítið um þá fyrirhuguðu einkavæðingu og sölu bankanna sem er nauðsynlegur hluti af fjármálastefnunni, eigi hún að ganga upp. Mig langaði að spyrja hv. þingmann út í skýrsluna sem við fengum í hendur í dag. Nú verða efnislegar umræður um skýrsluna á morgun. En það er ákveðið samhengi sem við þurfum að líta til. Ef við samþykkjum fjármálastefnu fyrir ríkisstjórnina sem gengur út frá að farið verði í ferli sem við eigum ekki til, gæti niðurstaðan orðið sú að við endum í sams konar einkavæðingarrugli og við lentum í fyrir fjórtán árum. Þá gæti niðurstaðan orðið nákvæmlega sú hin sama.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um hvað henni finnist um að verið sé að fara í þá röð aðgerða að búa til fjármálastefnu sem gengur út frá því að selja verði ákveðnar eignir þó að við höfum ekkert ákveðið ferli um hvernig selja á eignirnar án þess að úr verði annar skandall eins og við höfum ansi mikil gögn um.

Ég vil einnig spyrja: Hvernig ættum við að snúa þessu ferli til þess að það komi betur út fyrir okkur öll?