146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:22]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er vissulega rétt að erlend aðstoð var þegin og það eitt og sér leysir auðvitað ekki vandann. En verðum við ekki að áætla að eftir rannsóknarskýrsluna, eftir þessa skýrslu, sparisjóðaskýrsluna og ýmsar þær skýrslur sem við höfum fengið og sem sýna hvernig hér var farið með hlutina, að við verðum eitthvað varkárari? Það er eiginlega það eina sem maður verður að reyna að treysta á, að nú gangi menn örlítið hægar um gleðinnar dyr í þessum efnum.

Miðað við þau áform sem hér eru, þó að hæstv. fjármálaráðherra sé að reyna að segja okkur að hann þurfi ekki endilega að selja bankana, getur það skert samningsstöðu ríkissjóðs að selt verði. Talað er um niðurgreiðslu skulda en fram kemur hjá fjármálaráði, hjá ASÍ og fleirum að það sé byggt á veikum grunni. Það er kannski það sem maður hefur áhyggjur af, að þrátt fyrir að arðgreiðslur og einskiptisaðgerðir hafi verið eru þær auðvitað ekki ótæmandi lind.

Þess vegna er þetta í raun ekki í hendi. Á það er bent í þessum álitsgerðum, en við því hefur hins vegar ekki verið brugðist, hvorki í nefndaráliti né hér af hálfu ráðherra. Það er það sem maður hefur áhyggjur af. Ef það gengur ekki eftir, hvað þýðir það þá? Þýðir það að við sjáum hér mikinn niðurskurð í innviðum okkar, heilbrigðis- og menntakerfi? Eða þýðir það að við sjáum aukna einkavæðingu því að þessi ríkisstjórn telur að það sé ódýrara og það sé betri þjónusta ef við förum þær leiðir? Ég hef töluverðar áhyggjur af að það sé það sem við gætum átt eftir að horfa framan í (Forseti hringir.) ef hagsveiflan færi líka niður.