146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:25]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég tek undir þau sjónarmið sem koma fram í máli hv. þm. Ástu Guðrúnar Helgadóttur. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við stöldrum við þá staðreynd að við erum núna í fyrsta skipti að vinna samkvæmt lögunum um opinber fjármál frá grunni, þ.e. með því að koma fram með fjármálastefnu, síðan fjármálaáætlun og svo væntanlega fjárlagafrumvarp á grundvelli hennar. Við erum öll á Alþingi að feta okkar fyrstu skref í þessum efnum. Við erum öll að meta það jafnharðan hversu gott þetta verkfæri er. Ekki síst þess vegna þurfum við um leið og við rökræðum hér innihald og inntak málsins sem er aðalatriðið, þ.e. hin mikla og harða hægri stefna sem hér birtist, að ræða þá aðferðafræði sem hér er verið að kynna til sögunnar og það þá í grundvallaratriðum hvort eðlilegt sé að afgreiða stefnuna fyrr en við höfum séð áætlunina. Við getum í raun horft á þetta samhliða. Það er mjög vond tilfinning fyrir þingið að loka okkur öll inni í spennitreyju til fimm ára (Forseti hringir.) án þess að hafa séð aðeins betur til lands með það hvað þetta felur í sér efnislega.