146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:27]
Horfa

Smári McCarthy (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mig langar að taka undir það sem hv. þingmenn Ásta Guðrún Helgadóttir og Svandís Svavarsdóttir hafa sagt. Það er merkilegt að við erum annars vegar að tala um gríðarlega mikilvægt plagg í fyrsta skipti án þess að við vitum nokkuð um það hver næstu skref ferlisins verða og við vitum ekki hvernig fjármálaáætlunin verður. Við sjáum ekki hvernig hún lítur út. Að auki erum við að gera það nánast án þess að stjórnarmeirihlutinn taki þátt. Ég þakka fyrir mikla athygli sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir hefur veitt þessu. Hún sat með okkur í gærkvöldi og situr enn með okkur, en það eru miklu fleiri í stjórnarmeirihlutanum. Ég taldi 32 síðast þegar ég reyndi að telja og einn þeirra, sem mér finnst alveg stórmerkilegt að hafi ekki tekið til máls um þetta atriði, er hæstv. forsætisráðherra.

Þetta mál er nefnilega ekki einkamál hæstv. fjármálaráðherra. Hæstv. forsætisráðherra bjó þetta plagg líklega til og þarf að fylgja því eftir sjálfur. Hví er hann ekki í húsi?