146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:37]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Endurtekningin hefur orðið mönnum nokkuð til umræðu hér. Ég reyni að valda hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur ekki vonbrigðum með því að endurtaka mig ekki of mikið, en það er alveg hárrétt sem hefur komið fram að endurtekning getur verið af hinu góða. (Gripið fram í.) Ég þurfti t.d. að endurtaka próf í bókfærslu þrisvar, það var mér til góða. Ég útskrifaðist sem stúdent. Endurtekning getur verið hið besta mál.

Við erum að ræða þetta blessaða mál sem er einmitt ekki hið besta mál, þ.e. þessi smáblöðungur hér með einni auðri opnu aftast af því að það þurfti ekki einu sinni að nýta þær síður sem örkin bauð upp á. Þetta er ramminn utan um það samfélag sem hæstv. ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar boðar á Íslandi næstu fimm árin.

Ég fór yfir það í ræðu minni í gær — og í ljósi nýfenginna upplýsinga um áhuga hv. þingmanna á ræðum annarra hv. þingmanna þarf ég ekki mikið að vísa í hana, ég treysti því að þeir séu í óða önn að annaðhvort horfa á þá ræðu eða lesa ef hún er uppskrifuð — hvert mikilvægi þessa máls er, hvernig fjármálaráð teiknar þetta upp fyrir okkur á einfaldan og auðskilinn máta sem er gott fyrir menn eins og mig. Þetta er ósköp einfaldlega, eins og komið hefur fram hjá mörgum og verð ég þá því miður að grípa til endurtekningarinnar, ramminn innan hvers allt á að rúmast. Þetta er ramminn sem fjármálastefnan, sem kemur fram á næstu dögum, verður að rúmast innan og þetta er ramminn sem fjárlög hvers árs setur svo, ytri rammann um þann innri sem fjármálastefnan setur svo um fjárlögin. Hér er mikið af römmum. Þetta er ekki einu sinni rammaáætlun.

Þetta er ekki bara eitthvert frumvarp sem þarf aðeins að taka þátt í umræðum um og svo geta menn haldið áfram sáttir og glaðir út í lífið. Þetta er stórpólitískt mál. Ef við eigum ekki að takast á um pólitík í þingsal Alþingis þá veit ég ekki hvað við eigum að fara að gera.

Hér hefur verið komið inn á alvarlegar athugasemdir eða vangaveltur eins og það hvort lög um opinber fjármál standist stjórnarskrá. Það er býsna áhugaverð vangavelta sem ég hef tekið þátt í og er eitthvað sem við ættum að taka dálítið alvarlega þegar við erum að ræða þessi mál. Ég held að það sé alveg sama hvernig menn snúi sér í því, það er ekki hægt að taka fjárveitingavaldið úr þessum sal. Það er ekki hægt að segja: Nei, það er búið að setja hér einhvern ytri ramma sem við samþykktum á útmánuðum 2017 þannig að ekki er hægt að gera það sem við ætlum að gera haustið 2019. Það er það sem verður gert. Mér finnst stundum eins og margir hv. þingmenn átti sig ekki alveg á því.

Mér finnst stundum eima eftir af þeirri umræðu sem mér þótti alltaf dálítið sérkennileg við afgreiðslu fjárlaga í desember. Mér fannst eins og margir hv. þingmenn teldu að það væri einfaldlega ekkert hægt að gera. Það mætti ekki bæta við tekjum, mætti ekki hreyfa við útgjöldum, það mætti ekki leggja til þær breytingartillögur við fjárlögin sem þingheimur vildi sjá, einstakir flokkar. Þeirri afgreiðslu var mikið fagnað, alla vega sums staðar, og talað um mikla sátt. Það er auðvelt að ná fram sátt ef hún felst í því að lagt er fram frumvarp sem fer svo óbreytt í gegn. Ef fjárveitingavaldið, ef útskipting fjármuna ríkissjóðs í samneysluna, ef það kemur allt tilbúið í einhverjum stórum römmum sem fara sjálfkrafa í gegn er voða auðvelt að tala um sátt. Ljósritunarvél gerir ágætlega mikið gagn og er í töluvert mikilli sátt þar sem hún framleiðir alltaf ný og ný eintök, en það er ekki pólitík.

Ég kom aðeins inn á það í gær, eða líklega kom ég ekki inn á það, líklega er það eitt af því fáa sem ég kom ekki inn á gær sem ég ætlaði að ræða, að fjármálaráðherra og fleiri hafa rætt um að þessi rammi, hin nýja aðferð sem við notumst við sé að skandinavískri fyrirmynd, norrænt módel, vísa þar til og stöðugleika í fjármálum hins opinbera, sem er gott og blessað. Það er mjög gott að ná einhvers konar stöðugleika eins og hægt er í því. Það er þannig ef horft er til landanna í kringum okkur, hinna norrænu ríkjanna, að þar erum við að horfa upp á nokkuð sem kannski gleymist í umræðunni og sérstaklega hjá hæstv. fjármálaráðherra, sem er félagslegur stöðugleiki, sem er stöðugleiki launafólks, stöðugleiki hvað varðar húsnæði. Við erum að horfa upp á allt, allt annað módel hér. Mér finnst stundum hæstv. ráðherrar, bæði núverandi og síðustu ríkisstjórnar, horfa fram hjá því, vera að byrja á vitlausum enda. Það á að setja einhvern ramma utan um samninga á vinnumarkaði og svo hér en menn horfa fram hjá því að það vantar hina hliðina á peningnum, sem er þessi samfélagslegi stöðugleiki sem er kannski forsenda þess að þar er farið öðruvísi að þegar kemur að samningum á vinnumarkaði eða hvað varðar fjármál. Við erum að setja hér ramma og reyna að þvinga inn í hann eitthvað sem á ekki heima þar eins og er.

Við höfum talað um og komið inn á innviði, sem ég held að sé tískuorð áratugarins, allir ætluðu að efla innviðina. Ég gerði það að gamni mínu að lesa mig í gegnum kosningaloforð Bjartrar framtíðar og kosningaloforð Viðreisnar. Ég vildi ég væri góður í að reikna því að það sem lofað er að gera í þessum kosningastefnuskrám kostar skildinginn. Það kostar skildinginn sem t.d. Viðreisn lofar í heilbrigðis- og velferðarmálum, samþykkt á landsþingi 24. september 2016. Er liðið hálft ár? Það á að bæta heilsu, efla forvarnir, klára Landspítalann, vera með uppbyggingu í öldrunarþjónustu, heimahjúkrun og öldrunarheimilum, styrkja þarf heilsugæsluna, biðlista eftir heilbrigðisþjónustu þarf að stytta, endurskoða greiðsluþátttöku sjúkratrygginga. Þetta kostar allt peninga. Hvergi stendur: Allt þetta verður hins vegar að rúmast innan hagsveiflunnar. Það sagði ekki einn einasti frambjóðandi Viðreisnar sem ég heyrði í fyrir kosningar. Það segja þáverandi frambjóðendur, núverandi hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar núna hins vegar.

Tímans vegna get ég ekki skemmt þingheimi með því að lesa upp úr málefnaskrá Bjartrar framtíðar. Til að skemmta mér ekki of mikið náði ég mér ekki í kosningaáherslur Sjálfstæðisflokksins. (Gripið fram í.) Ég treysti því að þar hafi allt staðið eins og stafur á bók og öllu verið lofað á ábyrgan hátt, ég heyri það á hv. kollega mínum í salnum.

Það er nefnilega þetta sem stendur í mér, að koma fyrir kosningar og lofa öllu fögru, koma eftir kosningar og segja: Já, reyndar átti ég við að skattkerfið sem Bjarni Benediktsson, hæstv. fjármálaráðherra, kom upp, það má ekki hrófla við því. Við ætlum að setja hérna aukaþak á okkur, við ætlum að setja útgjaldaþak þannig að það sé alveg öruggt að við förum ekki að eyða of miklu og þetta á allt að rúmast innan hagsveiflunnar.

Ég hefði svo gjarnan viljað eiga þessar samræður við frambjóðendur fyrir kosningar. Það hefði verið rosalega heiðarlegt. Þá hefðum við getað gengið til kosninga og talað fyrir ólíkri hugmyndafræði, (Forseti hringir.) því að það er það sem þetta snýst um; (Forseti hringir.) annaðhvort að efla samneysluna og það sem henni fylgir eða svelta.