146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:49]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er gott að geta átt orðastað við hv. þingmann um eðli ljósritunarvéla. Ég sá það ekki fyrir þegar ég mætti til þingstarfa í morgun að það biði mín í dag. En vélin sem hv. þingmaður talaði um þar sem maður stingur forsendunum inn og fær kostnaðinn er einmitt ekki ljósritunarvél heldur einhvers konar tölva sem reiknar það út. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni að það er ólíðandi að svo sé ekki búið um hnútana að Alþingi hafi almennilega aðstoð, aðgang að sérfræðingum og almennilegri aðstoð í þeim efnum. Við sjáum nú þegar að þessi mál, annaðhvort þetta mál eða fjármálastefnan sem kemur, verður svo vísað til nefnda sem munu hafa örfáa daga til að reikna út innan þess ramma sem gefinn er til næstu ára eða árs. Það er alveg augljóst að það er ólíku saman að jafna, stuðningnum sem þingið hefur, þ.e. löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið. Fyrir vikið búum við allt of mikið við það að lagafrumvörpin verða til framkvæmdarvaldsmegin, koma hingað inn og gerðar eru á þeim litlar eða engar breytingar í sumum tilvikum og þau fara þannig í gegn. Það er það sem ljósritunarvél gerir. Hafandi ljósritað mikið á landsfundum stjórnmálaflokka í gegnum tíðina þá átta ég mig á því að það kemur alltaf það sama úr henni og í hana fer. Það er dálítið stemningin sem mér fannst vera hér við afgreiðslu fjárlaga í desember. Ég óttast að það verði dálítið stemningin næst þegar fjárlög verða afgreidd og þá verði vísað í þá ramma sem búið er að samþykkja hér.

Ég skal koma að kjördæmapotinu á eftir, ég gleymdi því.