146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:51]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði einmitt að minna hv. þingmann á kjördæmapotið.

Varðandi ljósritunarvélarnar notaði ég það sem inngangspunkt í umræðu um meiri vélvæðingu eða alla vega ferlavæðingu til aðstoðar okkur þingmönnum.

Ég ætla að útskýra kjördæmapotið aðeins betur. Ég er þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður og kannski af því ég er í fjárlaganefnd en ekki einhver þingmaður í Reykjavíkurkjördæmi suður gæti ég betur talað fyrir göngubrú yfir götu í Reykjavíkurkjördæmi norður sem væri meira viðeigandi umferðarlega séð í Reykjavíkurkjördæmi suður. Það er kjarni kjördæmapotsins, þessi ófaglega ákvarðanataka. Þegar líður að lokum hvers kjörtímabils er eins og það fari einhver skítadreifari fullur af peningum af stað sem keyrir um sveitirnar og dreifir á rétta staði eftir því sem atkvæði og loforð eiga við.

Ég upplifði það í kosningabaráttunni 2013 þegar maður fór inn á kjördæmafundi og þingmenn voru spurðir hvort þeir ætluðu að klára hitt og þetta verkefnið að allir sögðu já við öllu. Staðreyndin er náttúrlega sú að í öllum félagsheimilum úti um allt land er verið að spyrja nákvæmlega sömu spurninga og allir segja alltaf já. Það virkar ekki. Það gengur ekki. Það gerist ekki þannig. Við verðum að hafa ákveðna forgangsröð innan næsta nágrennis þar sem þau ákveða í nágrenni sínu hvaða verkefni eru forgangsverkefni. Það kemur að þeim að lokum eftir ákveðnu faglegu ferli, eftir ýmsum útreikningum, það ætti að vera hægt að nota það betur. Við myndum taka burt geðþóttavald og setja í staðinn faglegra ferli til þess að ákveða hvernig við nýtum fjármuni almennings á skynsamlegan hátt.