146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[19:05]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda aðeins áfram á sömu nótum og síðustu umræðu lauk. Hæstv. fjármálaráðherra hefur spurt nokkra þingmenn hver afgangur og afkoma ríkissjóðs ætti að vera samkvæmt þeim. Það lýsir, eins og við höfum svarað hérna áður, ákveðnum aðstöðumun þingmanna þar sem þingmenn minni hluta eru ekki í aðstöðu til setja fram fjármálastefnu á eigin forsendum. Minni hlutann vantar aðstoð við efnahagslegar greiningar, sem ráðherra hefur í fjármálaráðuneytinu og víðar, til að geta unnið samkvæmt þeirri venju. Ég hvet hins vegar til þess að við förum í þá átt að stjórnarandstaðan eða einstaka minnihlutaflokkar leggi líka fram sína fjármálastefnu, fjármálaáætlanir og fjárlagafrumvörp, svipað og er gert t.d. í Svíþjóð.

Í fyrri ræðu minni fór ég yfir nefndarálitið. Það var ákveðin tæknileg umfjöllun. Mig langar að tala á dýpri nótunum um fjármálastefnuna yfirleitt eins og ég hef skilið hana og tel að umræðan um hana ætti að fara fram. Ég gæti svo sem sleppt því að tala um þetta mál, ég gæti sleppt því að vara við þeim götum og göllum sem er að finna í fjármálastefnunni. Ef þessi fjármálastefna verður samþykkt óbreytt verður hún ómetanleg heimild það sem eftir er kjörtímabilsins fyrir mig sem stjórnarandstöðuþingmann. Ég gæti nýtt hana við hvert tækifæri í komandi fjárlagagerð til að spyrja: Hvernig passar þetta við fjármálastefnuna? Eða: Hvar er minnst á þetta í fjármálastefnunni? Þessi stefna er nefnilega hálftómleg, m.a.s. tæknilega séð. Það vantar að uppfylla ákveðin atriði sem er kveðið á um í lögum að eigi að vera í henni. Það þýðir að hægt er að taka U-beygju þegar vel hentar. Það er mjög þægilegt að geta tekið U-beygjur og hagað seglum eftir vindi, en það þýðir ekki endilega að við komumst á leiðarenda á sem hagkvæmastan hátt. Við getum tekið mjög stóra U-beygju í ranga átt af því að vindar eru þannig akkúrat núna. Ef við myndum halda stefnunni myndum við komast þangað sem markmiðin setja okkur, þangað sem stefnan segir að við séum að fara ef við skrifum það niður á annað borð.

Ef við skrifum það ekki niður er áhugavert að stefnan fer gegn grunngildunum um festu og stöðugleika, sem eru markmið laga um opinber fjármál. Ef við sleppum því að skrifa hver stefnan er, sem er gert, hún er tómleg, það vantar ákveðin atriði í hana, er hún í grunninn til að fara gegn festu og stöðugleika sem er dálítið kaldhæðnislegt miðað við slagorð eins stjórnarflokksins.

Það væri réttara að stefnan væri skýrari, a.m.k. ætti stefnan að innihalda það sem lögum samkvæmt er kveðið á um. Til viðbótar er eitt helsta hlutverk okkar á Alþingi að taka ákvarðanir um sameiginlega sjóði okkar landsmanna, að samþykkja fjárlög, en markmið laga um opinber fjármál er svo að skapa meiri fyrirsjáanleika. En þessi stefna, eins tómleg og hún er, uppfyllir ekki þá kröfu. Stefnan býður upp á U-beygjur án þess að það brjóti á neinu ákvæði fjármálastefnunnar. Af því að það er ekkert ákvæði fyrir get ég gert það sem ég vil án þess að ég þurfi að íhuga stefnuna.

Forseti. Mér finnst undarlegt að helsta viðfangsefni þingsins sé hvergi að finna í fjármálastefnu næstu fimm ára, viðfangsefni eins og heilbrigðiskerfið, velferðarkerfið, menntakerfið, samgöngukerfið og byggðamál, svo nokkur mál séu nefnd, þau mál sem við erum að fjalla um í fjárlögum. Það þarf að vera einhver vísir að þeim í fjármálastefnunni og það þarf að vera útskýring á því í fjármálastefnunni hvernig þær áherslur framfylgja þeim grunngildum sem kveðið er á um í lögum um opinber fjármál.

Núna erum við komin í aðra umferð í ræðum þingmanna í þessu máli og það sem ég bjóst við að gerðist gerðist ekki. Ég bjóst við að stjórnarþingmenn, nokkrir tóku þátt, ég þakka þeim kærlega fyrir og óska eftir að það verði til eftirbreytni, kæmu í ræður um stefnuna til að fullvissa þing og þjóð um að hægt væri að uppfylla öll kosningaloforðin innan ramma stefnunnar. Það er áhugavert að við erum að fara út í ákveðið ferli sem við kunnum ekki á. Við erum að læra þetta í ræðustól, við erum að átta okkur á því hvað ætti að vera inni í þessu og hvað ekki, fyrir utan það lagalega form sem okkur er sett.

Það er einstaklega kaldhæðnislegt að stjórnin hefur sett sér stjórnarsáttmála, sem ég skrifa ræðu mína aftan á. Þar er talað fyrir ýmsum útgjöldum en af einhverjum orsökum eru verkefni stjórnarsáttmálans hvergi nefnd í fjármálastefnunni. Ég bjóst við formönnum flokka að berja sér á brjóst hérna og segja að svona yrði þeirra málum skilað í fjármálaáætlun og í fjárlög. Ég vonaðist eftir að fá að sjá stjórnarþingmenn taka þátt í umræðum við stjórnarandstöðu til að útskýra hvernig fjármálastefnan skilar stjórnarsáttmálanum inn í fjárlög. Hér hafa nefndarmenn stjórnarinnar í fjárlaganefnd kynnt sjónarmið sín lítillega. Formaður fjárlaganefndar sagði að bankar yrðu seldir. Það kom aðeins á óvart og hefur verið borið eilítið til baka með því að segja að ekkert liggi á, en það er enn þá pínu á reiki nákvæmlega hver stefnan er þar. Það er skiljanlegt að stjórnarþingmenn taki lítinn þátt, því að stefnan er mjög tómleg og þá er kannski ekki mikið að tala um. En kíkjum aðeins á stjórnarsáttmálann. Þar er talað, t.d. í kaflanum um heilbrigðismálin, um örugga og góða heilbrigðisþjónustu sem verði forgangsmál ríkisstjórnarinnar. Það er ekki hægt að finna í fjármálastefnunni. Það er talað um uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut. Það er í stefnunni.

Það er talað um menntamál, að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir „að öll skólastig verði efld“. Það kostar, það er ekki í stefnunni. Styðja háskólana í að halda uppi gæðum. Það kostar, það er ekki í stefnunni. Áhersla á kennslu í skapandi greinum, forritun, hönnun og verknámi, og átak í hefðbundnum greinum. Það kostar líka, það er ekki í stefnunni.

Menningarmál, að myndarlega verði stutt við rannsóknir og þróun og hlutverk samkeppnissjóða víkkað út til rannsókna á sviði skapandi greina. Ekki í stefnunni.

Máltækniverkefni haldið áfram, það er góður milljarður að því er mig minnir og það er ekki í stefnunni.

Efnahagsmál og stöðugleiki, langtímamarkmið er að hreinar skuldir ríkissjóðs verði engar innan tíu ára. Mér finnst þetta dálítið merkilegt miðað við að umsagnaraðilar sögðu að eðlilegt væri að það væri ákveðin lágmarksskuldastaða til að viðhalda einhverju markaðskerfi vaxta o.s.frv. Þetta er voðalega flókið mál.

Í skattamálum þar sem hluti stefnunnar kveður á um að tala eigi um þróun skattamála er talað um samræmt kerfi grænna skatta. Það er ekki í fjármálastefnunni, samt er það í stjórnarsáttmálanum.

Í umhverfis- og auðlindamálum segir að ráðstöfun nýtingarréttinda á auðlindum í opinberri eigu skuli vera gagnsæ. Þetta myndi ég halda að væri að einhverju leyti tekjuþróun, en ekkert í fjármálastefnunni.

Það á að vera aukinn kraftur í uppbyggingu í samgöngumálum á öllum sviðum. Það er ekki í fjármálastefnunni.

Jafna kostnað íbúa við að njóta lögbundinnar grunnþjónustu. Ekki í fjármálastefnunni.

Fastgengisstefna? Hún kostar. Það er ekki í fjármálastefnunni.

Staðan er einfaldlega sú að þessi stefna er skýr hvað varðar lækkun skulda ríkissjóðs en stefnan er nákvæmlega ekkert skýr hvað varðar stjórnarsáttmálann. Þeir milljarðar sem losna úr vaxtagreiðslum, sem er mjög göfugt verkefni, virðast alls ekki duga fyrir þeim útgjöldum sem eru nauðsynleg, hvað þá þeim útgjöldum sem stjórnarsáttmálinn lofar. Það skiptist í tvennt, það eru nauðsynleg útgjöld, það er talað um fjárfestingarþörf. Hún er ekki í stjórnarsáttmálanum, stjórnarsáttmálinn talar um aukaútgjöld sem þarf að leggja í. Þær upphæðir sem er talað um til tekjuöflunar eða rýmkunar á útgjöldum ríma ekki alveg saman, þannig að lægri útgjöld nýtist í annað, við þau útgjöld sem stjórnarsáttmálinn talar um.

Á þessu eru hins vegar lausnir, það er tekjuaukning. Hún þarf ekki endilega að vera almenn skattahækkun, flokkar tala yfirleitt um ákveðin auðlindagjöld sem gætu verið tekjuaukning, en tekjuaukning er viðeigandi í uppsveiflu hagkerfis, svona umfram það sem hagsveiflan sjálf skilar til þess að vera sá sveiflujafnari sem er ítrekað talað um.

Einnig væri hægt að nýta einskiptistekjur til einskiptisuppbyggingar en fjármálastefnan einfaldlega bannar það, sama hvaðan þær koma. Stefnan er nefnilega mjög afdráttarlaus hvað þetta varðar. Því verður stjórnin að fara eftir, jafnvel þótt einhver verkefni stæðu til boða sem hagkvæmara væri að fara í en ávinningur af lægri vaxtagjöldum leiðir til. Þetta er rosaleg takmörkun. Það verður mjög áhugavert að fylgjast með því hvernig stjórnin nær að fylgja stefnu sinni.

Ég gæti sleppt því að tala um þetta mál. Ég gæti sleppt því að benda á gallana í stefnunni. Ef ég sleppti því væri ég lélegur stjórnarandstöðuþingmaður. Mitt hlutverk er nefnilega gæðaeftirlit og hversu gáfulega pólitískt það væri að leyfa ríkisstjórninni að vinna eftir þessari stefnu. Ég tel að niðurstaðan væri slæm fyrir þjóðina, ekki endilega efnahagslega, ef hagvöxtur heldur áfram verður það líklega allt í lagi, frekar vegna þess að Alþingi þarf að vinna sér inn traust þjóðarinnar. Lög um opinber fjármál eru í raun hjálpartæki fyrir stjórnmálamenn til að byggja upp traust með því að bjóða stjórn upp á að setja og samþykkja stefnu sem þarf að fara eftir.

Meira að segja samkvæmt lagahyggjunni, sem er mjög þekkt innan alla vega eins af stjórnarflokkunum, þar sem fara á eftir því sem stendur í lögum. Það skal þá fara eftir því sem stendur í þingsályktunartillögunni um fjármálastefnuna. Það er miklu áhrifaríkara fyrir lagahyggjufólk en stjórnarsáttmálinn. Það bindur hendur lagahyggjunnar aðeins meira og kannski hægt að ýta betur á eftir að þau fari eftir því sem þau segja.

En burt með útúrsnúninga og U-beygjur, inn með áætlun og framtíðarsýn. Traustið kemur svo ef fólk sér að það er farið eftir stefnunni. Með því að segja sem minnst og skila tómri stefnu er engin ábyrgð tekin og þegar engin ábyrgð er tekin byggist ekkert traust.

Nú hefur traust á Alþingi mælst 22%. Ég kallaði það draslflokk, ef maður á að nota samlíkingu við lán, ruslflokk eða eitthvað því um líkt. Við viljum ekki vera þar í lánshæfismati, við viljum heldur ekki vera þar í trausti.

Ég kalla því eftir stjórnarþingmönnum, ég kalla eftir umræðu um fjármálastefnu með tilliti til stjórnarsáttmálans. Vegna þess að ábyrgðarmaður stjórnarsáttmálans er að lokum forsætisráðherra kalla ég eftir útskýringum forsætisráðherra á því hvernig þessi stefna passar við stjórnarsáttmálann. Ég kalla eftir forsætisráðherra þó að ég treysti ekki að það sem hann segir sé nákvæmt. En í umræðu um stefnuna væri a.m.k. hægt að leggja orð að veði og hér er tækifæri til að búa til traust. Það markmið að byggja traust, sem t.d. siðareglur ráðherra eiga að stuðla að, er gríðarlega mikilvægt og á að vera ofar egói hvers ráðherra og þingmanns.

Forseti. Hér er tækifæri stjórnar til að leggja orð sitt að veði og uppskera samkvæmt því.