146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[19:21]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á að hafa ekki uppfyllt björtustu vonir hæstv. ráðherra, en mér finnst hæstv. ráðherra gera helst til lítið úr málflutningi mínum með gríni, svo ég komi því frá mér.

Jú, ég þekki ferlið ágætlega. Hins vegar hef ég verið að læra mun meira um ferlið og hvað vantar á hvern stað fyrir sig. Í fjármálaáætluninni á að vísa í stefnuna og þau grunngildi sem þar eru. Í fjármálastefnunni á að staðfesta það hvernig hún fer eftir grunngildunum. Þegar við erum komin alveg niður í fjárlögin þá geta þau ekki verið til í því tómarúmi sem ég er að reyna að lýsa. Við verðum að geta séð fjármálaáætlun og skilið þegar birtist einhver tala til hækkunar eða lækkunar á einhverju málefnasviði: Já, ég bjóst við þessu af því að það stendur í fjármálastefnunni. Ég veit að talan hækkar eða lækkar aftur á næsta ári af því að það stendur í fjármálastefnunni. Það þarf ekki að standa þar nákvæmlega, það er nóg að segja að það verði lögð áhersla á t.d. uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu. Þegar ég skoða fjármálaáætlunina þá sé ég að það er hækkun í málaflokknum og segi: Allt í lagi, þetta var sagt í fjármálastefnunni, núna veit ég töluna.

Það er á þann hátt sem ég kalla eftir umræðum um fjármálastefnuna því hún er lögð til næstu fimm ára. Ef við segjum ekki neitt um það hver alvörustefnan er, alveg niður á helstu málefnasvið sem við glímum síðan við sem fjárveitingavald, þá er um að ræða hentistefnu sem lög um opinber fjármál eru að reyna að koma okkur frá. Við eigum að setja stefnu á framtíðarsýn. Það er það sem lög um opinber fjármál beina okkur í. (Forseti hringir.) Ef við hunsum það þá erum við komin aftur þangað sem við vorum fyrir þá lagasetningu.