146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[19:25]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig á því hvað kemur fram í fjármálaáætluninni. Þar kemur fram nákvæmari útfærsla á stefnuviðmiðum, í rauninni mjög nákvæm. Ég skil þetta á þann hátt að það verði að vera almennari leiðbeining fyrr í ferlinu. Miðað við hvernig fjármálastefnan hljómar og hvernig hún er skrifuð, sérstaklega með tilliti til grunngildanna, þá sýnist mér það vera óhjákvæmilegt að minnast eitthvað á lokamarkmið sem er úthlutun fjárveitinga í fjárlögum eftir málefnasviðum og flokkum. Alls ekki á nákvæman hátt, bara á almennan hátt eins og ég lýsti áðan. Því til hvers annars að vera með fjármálastefnu í rauninni? Af hverju er ekki verið að setja þessi sömu útgjaldamarkmið strax í fjármálaáætluninni?

Í venjulegu ferli kemur fjármálastefnan fram samhliða fyrstu fjárlögum ríkisstjórnar. Hún hefur þá verið við störf í rauninni frá vori. Stefnan er síðan ekkert endilega samþykkt fyrr en a.m.k. áður en fyrsta fjármálaáætlunin er samþykkt næsta vor. Það er þá alveg heill vetur sem er gefinn til þess að ræða fjármálastefnuna. Það gefur til kynna að það eigi að vera dálítið djúp umræða um það sem fjármálastefnan fjallar um, hún fjallar um næstu fimm ár fram í tímann. Hún fjallar um fjármálaáætlanir og fjárlög næstu fimm ára mögulega.

Tíminn sem er gefinn (Forseti hringir.) gefur mér þá vísbendingu að það eigi að verða nokkuð djúpar umræður um fjármálastefnuna óháð því hvernig hún kemur fram núna. (Forseti hringir.) Þetta er kannski eitthvað sem við getum stefnt að næst.