146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[19:28]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér fannst það vel til fundið hjá honum að lesa upp úr stjórnarsáttmálanum — ég verð að vera ósammála hæstv. fjármálaráðherra um að það hafi kannski verið besti parturinn af ræðunni, mögulega vegna þess að ég deili ekki sýn hæstv. ráðherra á stefnu ríkisstjórnarinnar — og bera saman það sem kemur fram í stjórnarsáttmálanum og það sem kemur fram í fjármálastefnunni. Ég verð að viðurkenna að upplifun mín af því var svolítið sú sama og þegar maður horfir á sjónvarp og hljóð og mynd fara ekki saman því að ég sé ekki hvernig þetta á að geta farið saman nema stjórnin treysti sér algerlega til að fullyrða að allar hagvaxtarspár gangi eftir.

Mig langar þess vegna að spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki einmitt einn af hinum stóru veikleikum þessarar stefnu að við höfum ekki nákvæmu greiningarnar. Efnahags- og viðskiptanefnd fór aldrei yfir málið. Við þurfum eiginlega, alla vega þeir sem mögulega koma til með að samþykkja þetta plagg, að reiða okkur á vonina, eða krossa fingur, um að þetta gangi eftir, til þess að stjórnarsáttmálinn gangi upp og til þess að ríkisstjórnin geti uppfyllt loforð sín.