146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[19:30]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekkert endilega ósammála þeim markmiðum stjórnarsáttmálans sem ég las upp; ég gæti kannski verið ósammála þeim aðferðum sem yrðu notaðar til að ná þeim markmiðum. Við Píratar töluðum um uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu og í menntamálum og því um líkt, þetta eru almennt góð markmið sem slík. Hvað varðar efnahagshorfurnar þá er það það sem við höfum rætt og reynt að greina í þessari umræðu undanfarið. Það virðist vera erfitt að sjá hvernig áætlunin gengur upp án þess að hagvöxtur haldi áfram, tölurnar virðast ekki ganga upp. Við höfum ekki aðgang að hjálpartækjum til að útskýra hvort við höfum rétt fyrir okkur eða ekki. Við höfum ekki aðgang að þeim upplýsingum sem myndu segja okkur hvað jafn margir ferðamenn og í fyrra myndu þýða fyrir hagvöxtinn eða eilítið færri. Við höfum ekki aðgang að efnahagslegu forsendunum, nema hagvaxtartölunum, þessari hagvaxtarspá, og það er það eina sem þetta byggist á. Við erum ekki með neina næmnigreiningu eða sviðsmyndagreiningu á því hversu líklegt er að það náist. Það hefur oft verið talað um það hér á þingi að það náist aldrei. Nú veit ég ekki einu sinni hversu líklegt það er að alla vega þessar tölur náist. Umsagnaraðilar töluðu einmitt um að það væri verið að biðja um kraftaverk að ætlast til þess að hagvöxtur væri í svona langan tíma þar sem hann hefur aldrei verið í svona langan tíma. Það er dálítið það sem ég bið um, það er minn lærdómur af þessu umræðuferli innan Alþingis, að hafa aðgang að því að taka saman slíkar upplýsingar.