146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

upplýsingar um eigendur fjármálafyrirtækja.

[10:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég er honum alveg sammála um að það er ekkert einkamál Fjármálaeftirlitsins hverjir eru eigendurnir. Landsmenn allir eiga að fá að vita það. Ég tel að almennt eigi landsmenn að fá að vita það hverjir eiga fyrirtæki, að þeir feli sig ekki á bak við einhver skrýtin eigendanöfn, og að við vitum hverjir eru hinir endanlegu eigendur. Þetta er algerlega nauðsynlegt til þess að við höfum traust á stofnunum samfélagsins og þetta er sérstaklega mikilvægt þegar bankar eiga í hlut, einkum þegar þetta er einn af stærstu bönkum landsins.