146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

Fjármálaeftirlitið og upplýsingar um kaupendur banka.

[10:42]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Á dögunum var 30% hlutur í Arion banka seldur til nokkurra erlendra kaupenda og voru vogunarsjóðir þar á meðal. Af því tilefni sagði hæstv. forsætisráðherra í samtali við Morgunblaðið, með leyfi forseta:

„… það eru sannarlega góðar fréttir ef hingað vilja koma öflugir erlendir aðilar sem eru tilbúnir að gerast langtímafjárfestar í íslenskum fjármálafyrirtækjum. Auðvitað á eftir að koma í ljós hvað þessir tilteknu aðilar eru að hugsa og hversu lengi þeir hafa hugsað sér að fjárfesta hér …“

Hæstv. fjármálaráðherra fagnaði einnig. Við þetta er ýmislegt að athuga. Það er óvíst hverjir eru endanlegir eigendur að þessum 30% hlut, eins og við höfum rætt. Það er ekki hægt að vita hvað þeir eru að hugsa og við vitum heldur ekki hvort hér eigi í hlut langtímafjárfestar eða einfaldlega vogunarsjóðir í stöðutöku til skamms tíma. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur tekið undir gagnrýni okkar og talið það mjög mikilvægt og reyndar varað við því að vogunarsjóðir séu góðir fjárfestar og það sé skynsamlegt að fara sér hægt og velja af kostgæfni þá sem kaupa og að tryggt sé hverjir það séu.

Í gær var kynnt skýrsla um blekkingar þegar öflugur erlendur aðili fjárfesti, en þó ekki, í Búnaðarbankanum gamla. Þátttaka þýska bankans var tímabundið yfirvarp. Mig langar því að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sé mér ekki sammála um að heppilegra sé að vita hverjir eru endanlegir eigendur að kerfislega mikilvægum fjármálastofnunum og hvort Goldman Sachs bankanum sé blandað inn í þetta í sama tilgangi og á sínum tíma þegar Hauck & Aufhäuser var settur hérna.

Þar sem hæstv. fjármálaráðherra hefur verið hér með nokkuð skýrar yfirlýsingar, en hann fer einnig með Fjármálaeftirlitið sem virðist hafa brugðist á sínum tíma í eftirlitinu, vil ég einnig spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi látið kanna nú þegar hvort núgildandi lög og reglur tryggi Fjármálaeftirlitinu nægileg tæki til að ganga eftir því að hægt sé (Forseti hringir.) að upplýsa um raunverulegt eignarhald í kerfislega mikilvægum bönkum.