146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

trúnaðarskylda fyrrverandi ráðgjafa um losun gjaldeyrishafta.

[10:49]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Benedikt Gíslason, fyrrverandi aðstoðarmaður hæstv. forsætisráðherra Bjarna Benediktssonar þegar hæstv. ráðherra var fjármála- og efnahagsráðherra, var einn helsti ráðgjafi síðustu ríkisstjórnar um losun gjaldeyrishafta. Eitt af því sem fólst í vinnu Benedikts var að koma að gerð stöðugleikaskilyrða, reglna um hvernig kröfuhafar föllnu bankanna geta farið með hundruð milljarða króna eignir sínar frá Íslandi. Benedikt vinnur nú fyrir kröfuhafa Kaupþings sem eru stærstu eigendur Arion banka og starfar því núna fyrir þá aðila sem stöðugleikaskilyrðin voru m.a. sniðin að. Benedikt Gíslason segir í samtali við Fréttatímann á dögunum að hann hafi fengið starfstilboð frá eignarhaldsfélaginu Kaupþingi ehf. síðastliðið haust og hann hafi þegið það og segir að trúnaður gildi um samningssamband hans við Kaupþing í skriflegu svari, en Benedikt lét af ráðgjafarstörfum fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið í júní í fyrra.

Benedikt er bundinn trúnaði við Kaupþing. En er hann bundinn trúnaði um þá vitneskju sem hann aflaði sér sem ráðgjafi og aðstoðarmaður fjármála- og efnahagsráðherra? Ég spyr hæstv. forsætisráðherra um það og við hvern ráðningarsamband Benedikts var þegar hann vann sem ráðgjafi fyrir ríkisstjórnina í verkefnum tengdum losun hafta. Var honum ekki gert óheimilt í þeim ráðningarsamningi að vinna fyrir gagnaðilana nema að einhverjum tíma liðnum og hversu langur var þá sá tími? Benedikt hefur sjálfur neitað að svara því hvort hann sé vanhæfur til að starfa fyrir kröfuhafana. Hvert er álit hæstv. forsætisráðherra á því?