146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

trúnaðarskylda fyrrverandi ráðgjafa um losun gjaldeyrishafta.

[10:51]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er spurt hvort menn hafi ekki trúnaðarskyldu sem hafi fengið verkefni eða gegnt sérstökum verkefnum fyrir stjórnvöld. Í þessu tiltekna máli er það þannig að allir sem komu að vinnunni gerðu sérstaka trúnaðarsamninga. Ég hef nú ekki skoðað þá samninga nýlega en mig rekur ekki minni til þess að þar sé kveðið á um að einhverjar takmarkanir séu á því hvað menn geti farið að fást við eftir að samningssambandinu lýkur. Það sem mér finnst hins vegar skipta mestu máli hér er að vinnunni var lokið, allir skilmálar höfðu verið settir, vinnan hafði skilað árangri, verkefninu lauk með því að slitabúin gátu gengið frá uppgjöri sínu og meðal þess sem sneri að Kaupþingi var að félagið gaf út sérstakt skuldabréf sem var háð skilmálum. Þeir skilmálar hafa lengi legið fyrir, það er ekkert trúnaðarmál varðandi efni þeirra. Í sjálfu sér á ég mjög erfitt með að sjá hvernig það er hætta á hagsmunaárekstrum vegna þessarar stöðu í ljósi þess að verkefninu er lokið og það liggur fyrir hver niðurstaða málsins var.