146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

rannsókn á sölu ríkisbankanna.

[10:56]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég ætla að láta vera að hnýta í þetta upplegg hér sem dæmir sig sjálft. En það sem ég hef sagt í umræðu um þörfina fyrir frekari einkavæðingu bankanna er að við höfum nú þegar gríðarlega mikið magn rannsóknarskýrslna. Má ég nefna í því sambandi að á sínum tíma var gefin út sérstök skýrsla um hæfi Halldórs Ásgrímssonar til að fjalla um sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum. Við sáum síðan samantekt frá Ríkisendurskoðun sem varðaði þennan þýska banka, Hauck & Aufhäuser, til fjárlaganefndar í tilefni af fundi með Vilhjálmi Bjarnasyni á sínum tíma þar sem greinargerð var skilað til þingsins. Við vorum síðan með minnisblað og samantekt frá 7. júní 2005 þar sem 34 spurningum sem komu fram á fundi fjárlaganefndar var svarað. Þar var farið yfir fjölmörg atriði sem lutu að einkavæðingunni og í desember 2003 kom út skýrsla um einkavæðingu helstu ríkisfyrirtækja 1998–2003 frá Ríkisendurskoðun þar sem farið var yfir það sérstaklega hvort markmið ríkisins með einkavæðingunni hefðu náðst. Einnig var farið yfir það hvort fylgt hefði verið þeim skilmálum, þeim skilyrðum, sem settir voru þegar einkavæðingarnefndinni var komið á fót á sínum tíma. Um þetta allt saman var fjallað í þeirri skýrslu. Því til viðbótar var greinargerð skilað í október 2002 um útboð á fjórðungshlut ríkisins í Landsbankanum, sérstök greinargerð vegna þess máls.

Má ég síðan minna á að á síðasta ári, 2. júní á síðasta ári, samþykkir Alþingi að samhliða þeirri rannsókn sem nú er nýlokið skuli stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fara yfir öll þau gögn sem ég hef hér talið og leggja mat á hvort ástæða sé til að gera frekari rannsóknir á einkavæðingu (Forseti hringir.) Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, Landsbankans og Búnaðarbankans. Þær tillögur studdi ég, þannig að hv. þingmaður ætti ekki að þurfa að fara í grafgötur um það hver afstaða mín er í þessu máli.