146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um kaup í Búnaðarbankanum.

[11:02]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Í tilefni af þeirri umræðu sem fór fram hér á undan í fyrirspurnum til ráðherra tel ég rétt að byrja á því að fara aðeins yfir þingsályktunartillöguna um rannsókn á erlendri þátttöku á kaupum á 45,8% eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands. Sú rannsókn var falin einum manni og til þess ætlast að hann myndi draga saman og búa til birtingarupplýsingar um málsatvik og aðkomu einstakra aðila að þátttöku þýska bankans í kaupunum með tilliti til þeirra upplýsinga sem kaupendur veittu íslenska ríkinu sem seljanda og stofnunum þess. Síðan var til þess ætlast á grundvelli niðurstöðu rannsóknarinnar og að lokinni yfirferð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að nefndin myndi leggja mat á hvort hún gerði tillögu að frekari rannókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, Landsbanka og Búnaðarbanka Íslands, samanber ályktun frá 7. nóvember 2012. Þetta er í þingsályktunartillögunni og þá vinnu verður farið í.

Ég hef sjálfur lýst þeirri skoðun minni áður, og það er eftir samtal við marga sérfræðinga, og m.a. við umboðsmann Alþingis sem kom fyrir nefndina, að ekki sé tilefni til frekari rannsóknir á einkavæðingu þessara banka, og vel að merkja hafa farið fram rannsóknir áður, nema nýjar upplýsingar komi fram, hvort sem er í kringum þá rannsókn sem nú er nýlokið eða önnur gögn, að þá fari rannsókn fram um einstök tilvik eða einstök atriði í stað þess að við önum út í mikla rannsókn og kostnaðarsama án þess að vita raunverulega hvert við erum að fara og hvert hún muni leiða okkur. Ég vil byrja á því að taka þetta fram.

Í umræðu um svona mál, þegar rannsóknarnefndir og rannsóknarniðurstöður koma fram, vil ég nota tækifærið til að fara yfir hlutverk stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, tala almennt um hlutverk hennar.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. þingskapa Alþingis skal stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd taka skýrslur rannsóknarnefnda til umfjöllunar, gefa þinginu álit sitt um þær og gera tillögur um frekari aðgerðir þingsins. Þetta mun nefndin auðvitað gera. Enn fremur segir í athugasemdum við frumvarpið, sem varðar lög um rannsóknarnefndir, nr. 68/2011, en þar er þessu hlutverki lýst nánar:

„Mikilvægt er að hafa í huga að niðurstöður rannsóknarnefndar eru ekki bindandi og því er nauðsynlegt að unnið sé úr þeim með skilvirkum hætti. Skýrslubeiðandi þarf með öðrum orðum að leggja sjálfstætt mat á niðurstöður nefndarinnar“ — þ.e. rannsókarnefndarinnar — „og taka ákvörðun um framhaldið sem getur eftir atvikum falið í sér lagabreytingar og gagnrýni á vinnubrögð í stjórnsýslunni og eftir atvikum ráðherra, svo dæmi séu tekin.“

Þetta er hlutverkið. Nú hefur nefndin fengið þessa skýrslu til umfjöllunar. Nefndarmenn eru að kynna sér efni hennar. Nefndin fundaði í morgun til að ræða sín á milli um framhaldið, hvernig best sé að hátta málsmeðferð, og fara yfir þetta skilgreinda hlutverk. Það er auðvitað mikilvægt að við áttum okkur á því hvert hlutverk og starf okkar er.

Í þessu máli er rannsóknarnefndin eða nefndarmaðurinn að draga fram upplýsingar, afla gagna og draga fram upplýsingar. Nefndin dregur sínar ályktanir en við í stjórnskipunar- og eftirlitsnefndinni verðum líka að draga okkar eigin sjálfstæðu ályktanir af þeim atvikum og gögnum sem um ræðir.

Það sem skiptir okkur mestu máli er að fara yfir aðkomu stjórnvalda við sölu bankans á sínum tíma. Hvaða skilyrði voru sett af hálfu stjórnvalda? Hvernig var þingsályktunartillagan? Til hvers var ætlast? Skipti þetta máli? Hvaða lög og reglur giltu á þeim tíma? Fylgdu stofnanir ríkisins því öllu saman eftir? Hvert var hlutverk þeirra í þessu ferli öllu saman? Hversu mikið umboð hafði einkavæðingarnefndin? Hvaða skilyrði setti hún o.s.frv.? Á grundvelli þessa þurfum við að komast að einhverri niðurstöðu. Við þurfum að vinna þetta faglega og með tilliti til hlutverks okkar.

Ég ætla ekki að hafa skoðun á innihaldinu núna. Ég ætla ekki að hafa skoðun á því hvort stjórnlagaráð hafi verið blekkt. Ég ætla ekki að hafa skoðun á því núna hvort stjórnvöld hafi staðið sig illa. Ég vil fara vandlega yfir þessi atriði, staðreyndir og gögn, og ég vil taka afstöðu til málsins þegar það hefur verið gert.

Ég skora á alla að fara vandlega yfir þessa skýrslu og hafa líka þolinmæði og leyfa stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að sinna hlutverki sínu við að fara yfir gögnin og koma með álit sitt og tillögur til þingsins í málinu.