146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um kaup í Búnaðarbankanum.

[11:16]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um þátttöku Aufhäuser-bankans í einkavæðingu Búnaðarbankans hf. árið 2003. Hér er varpað ljósi á einn hluta málsins, enn er eftir að fara yfir einkavæðinguna í heild. Hæstv. forsætisráðherra Bjarni Benediktsson segir í gær að það sé óþarfi. Formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sagði áðan, og raunar í fjölmiðlum líka, að það þurfi að koma eitthvað nýtt fram til þess að vekja slíka rannsókn.

Eitthvað nýtt er komið fram. Núna liggja fyrir nýjar upplýsingar, þær eru komnar fram, þær eru hér. Þær eru þessi skýrsla hér, þær eru skýrslan um blekkingarnar. Það er fullnægjandi til þess að hefjast handa við rannsókn í samræmi við samþykkt Alþingis frá því í nóvember 2012, um rannsókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Enda liggur nú fyrir, eftir fyrirspurnatímann í dag, og eru stærstu tíðindin í umræðunni hér að það er meiri hluti á Alþingi með því að taka til við rannsókn á á einkavæðingu bankanna í heild í samræmi við umrædda þingsályktun.

Næstu skref eru því að taka til starfa í samræmi við þann vilja þótt formaður Sjálfstæðisflokksins og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafi talað gegn því. Því ber að fagna.

Virðulegur forseti. Sú óheillaför sem hófst með einkavæðingu bankakerfisins, helmingaskiptum þáverandi ríkisstjórnarflokka og þeirri niðurstöðu að almenningur tapaði, samfélagið tapaði og endaði með sögulegu efnahagshruni og kreppu á Íslandi tekur á sig sífellt skýrari mynd. Almannahagsmunum var varpað fyrir róða og algjört sinnuleysi virðist hafa verið fyrir hendi. Pólitísk nauðhyggja um að allt skyldi einkavæða, leyndarhyggja og klíkupólitík leiddu til þess sem hér er til umfjöllunar. Blekkingum var sannarlega beitt með skipulegum hætti og fjármunum var stolið frá almenningi. Það liggur fyrir. Margt hefur gerst síðan en enn þá er ekki öllum spurningum svarað. Hver átti að gæta almannahagsmunanna í þessu ferli? Var það Fjármálaeftirlitið? Var það Ríkisendurskoðun? Voru það ráðherrarnir í ríkisstjórninni? Þeim sem var falið að gæta hagsmuna samfélagsins, heildarinnar? Það liggur a.m.k. fyrir að þetta ferli brást, að framkvæmdanefnd um einkavæðingu sem starfaði í sterku umboði ríkisstjórnarinnar á þessum tíma mistókst verkefnið.

Fyrir réttu ári voru Panama-skjölin í hámæli, tengsl við aflandsfélög, leyndarhyggja og peningagræðgi höfðu ráðið för hjá fjölda fólks og fyrirtækja. Jafnvel forystumenn í ríkisstjórninni reyndust hafa geymt fé í skattaskjólum og niðurstaðan varð sú að hún hrökklaðist frá og við gengum til kosninga fyrr en ella. Nú höfum við hér nýja ríkisstjórn þar sem forsætisráðherrann er einn þessara forystumanna sem voru í Panama-skjölunum. Þessi forsætisráðherra sagði í gær að ekki þyrfti að kanna neitt frekar og ekki einkavæðinguna í heild. Kunnugleg stef, leyndarhyggja, passað upp á sína. Hver gætir almannahagsmunanna núna?

Það hlýtur að vera fortakslaus krafa af hendi Alþingis að nú verði ráðist í þessa heildarendurskoðun í þágu samfélagsins í heild. Feluleiknum verður að linna.

Virðulegi forseti. Í þessari rannsóknarskýrslu kemur fram að það var skýrt markmið að gera leynilega samninga til að leyna eignarhaldinu á kaupendum Búnaðarbankans á sínum tíma og að vísvitandi blekkingum var beitt í því skyni. Fyrir liggur að verulegir fjármunir voru þar með dregnir af almenningi og að einstaklingar stórefnuðust af þeirri fléttu sem í skýrslunni er lýst. Skýrslan vekur spurningar um það hverjir vissu hvað og verður að teljast í hæsta máta ólíklegt að fleiri í S-hópnum hafi ekki vitað hvers kyns var og þar með einhverjir ráðamenn. Það sem liggur fyrir núna og liggur fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er að við þurfum að hafa öll tól og tæki til að skýrt sé hverjir eigi í hlut á hverjum tíma. Það þarf að vera hægt að knýja bankana til að segja til um aðkomu við einstaka gerninga um eignarhald og annað því um líkt.

Í skýrslunni hefur því verið lýst skilmerkilega hvað gerðist og þar með skapaður skýr grundvöllur fyrir okkar störf, okkar störf á Alþingi, stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, það er okkar að ákveða næstu skref, fara í saumana á málinu og gera tillögur til Alþingis.

Hv. þm. Brynjar Níelsson fór yfir greinargerð frumvarps til laga um rannsóknarnefndir þar sem segir að mikilvægt sé að gæta að því að skýrslubeiðandi, þ.e. Alþingi, þurfi að leggja sjálfstætt mat á afurð rannsóknarnefndar hverju sinni. Þannig að næstu skref eru að draga lærdómana en ekki síður að spyrja pólitískra spurninga um almannahagsmuni, um það hverjir gættu þeirra þá en ekki síður hverjir gæta almannahagsmuna núna. Er um að ræða gagnsæi núna, er um að ræða traust á viðskiptalífinu núna? Er ásættanlegt að um sé að ræða samspil leyndar, valda, viðskipta og stjórnmála yfir höfuð? Það leiddi okkur út í ógöngur þá og hætt er við að slíkt endurtaki sig ef um slíkt samspil er að ræða við stjórn landsins á hvaða tímum sem er.