146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um kaup í Búnaðarbankanum.

[11:25]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það var afar sérstakt og vont að sjá niðurstöðu rannsóknarskýrslu rannsóknarnefndar Alþingis í gær þar sem skýrt er að mati þeirra sem skýrsluna unnu að einn kaupenda að Búnaðarbankanum á sínum tíma hafi með samstarfsmönnum sínum blekkt alla, stjórnvöld, almenning, eftirlitsaðila og jafnvel samstarfsaðila að kaupunum einnig. Það er með ólíkindum að horfa á hvað menn gengu langt til þess. Menn hafa velt þeirri spurningu upp hvort það hafi verið einhver sérstakur tilgangur með því að þurfa að leyna þessu eignarhaldi, hvort það eitt og sér hafi haft áhrif, en í ljósi þess hversu langt menn gengu í því að tryggja að það væri hlýtur það að hafa verið fyrir einhverja aðila. Við sjáum enn á ný að með því að nýta sér aflandsfélög í þeim eina tilgangi að leyna raunverulegu eignarhaldi erum við í þessum heimi okkar að kljást við aðila sem erfitt er að kljást við. Við sjáum í þessari skýrslu að sá erlendi aðili, franski bankinn Société Générale, sem upphaflega var talinn líklegastur til að vera að koma að kaupunum virðist hafa verið aðalmennirnir í því að útbúa þessa fléttu. Það kom fram í svörum við spurningum mínum við rannsóknarnefndina í gær.

Það kemur í ljós að annar banki, þýskur banki, telur það vera nægilega virðingu við sig að fá 1 milljón evra fyrir að taka þátt í slíkri fléttu. Með öðrum orðum sýnir þetta okkur heim sem við þekkjum ekki eða illa, heim sem við myndum vilja að væri ekki til eða væri í það minnsta eitthvað öðruvísi. En kannski er það mikilvægasta að við verðum að viðurkenna að svona var þetta og er sennilega enn í hinu alþjóðlega fjármálakerfi. Þá kemur að stóru spurningunni, hvernig við sem gæslumenn almannahagsmuna getum upplýst og komið í veg fyrir að svona lagað gerist aftur, annars vegar með lögum og reglum, að tryggja að eftirlitsaðilar hafi tæki til þess að fylgja því eftir, og einnig það sem kemur líka fram í skýrslunni og í svari nefndarmanna við spurningu minni um fagaðilana, þá sem gjarnan er talað um að við stjórnmálamenn eigum að treysta á. Við eigum ekki að hlusta á okkar eigið brjóstvit heldur eigum við að kalla til óháða sérfræðinga sem segja okkur hvernig hlutirnir eru, í þessu tilviki stór þekktur, alþjóðlegur banki, HSBC. Það er ekkert í gögnum sem rannsóknarnefndin gat aflað sér sem benti til þess að þessir aðilar hefðu haft vitneskju um þetta, í það minnsta gáfu þeir ekki íslenskum stjórnvöldum og eftirlitsaðilum neinar vísbendingar um að þarna væri pottur brotinn.

Og þá er spurningin hvar við erum stödd. Hvernig eigum við að koma í veg fyrir slíka hluti? Það er augljóst að við þurfum að velta fyrir okkur og nota til þess okkar eigið brjóstvit að svona hlutir geta gerst. Nú hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mætt í sína reglubundnu heimsókn og gefið út skýrslu þar sem hann tekur undir gagnrýni, m.a. okkar Framsóknarmanna, á það ferli sem hefur verið við sölu á hlut í Arion banka. Það er vissulega ekki ríkið sem er að selja heldur eru þeir eigendur að bankanum að einhverju leyti að selja sjálfum sér. Enn og aftur dúkkar upp viðurkenndur alþjóðlegur banki, Goldman Sachs, sem sagður er vera hluti af kaupunum, væntanlega til að auka við trúverðugleikann á kaupunum, en í þeim spurningum sem við höfum lagt hér fyrir, m.a. í efnahags- og viðskiptanefnd, hefur Fjármálaeftirlitið ekki getað svarað því hvort hann sé raunverulegur eigandi eða hvort það sé í þessu tilviki ekkert ósvipað ferli og var hér fyrir 15 árum.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur líka bent á það sem við höfum gagnrýnt, að það sé mjög óheppilegt og óæskilegt að vogunarsjóðir, sem eru kvikir fjárfestar sem eru ekki að hugsa um langtímastarfsemi, séu raunverulegir eigendur að fjármálakerfinu, að mikilvægum kerfislægum stofnunum á fjármálasviði á Íslandi. Ég held að allt þetta verði til þess að við þurfum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, í efnahags- og viðskiptanefnd og eftir atvikum í öðrum nefndum þingsins og hérna í þingsal að gæta þess sérstaklega hvort sá laga- og reglugrunnur sem var hér fyrir 15 árum sé nægilega breyttur til að hægt sé að taka á þessu máli inn í framtíðina til að við getum raunverulega tryggt það með einhverri vissu að svona gerist ekki. Það er augljóst að innan þessa fjármálakerfis svífast menn einskis þar sem í þessu máli er verið að tala um tvo alþjóðlega banka sem væntanlega vilja gjarnan koma fram sem traustir aðilar á sínu svæði.

Það er líka spurning þar sem núverandi ríkisstjórn hefur lagt fram drög að eigandastefnu þar sem aðalatriðið er að það skuli selja eignir ríkisins í hinum bönkunum, þ.e. Landsbankanum og Íslandsbanka, og tengsl þeirrar sölu við fjármálastefnu næstu fimm ára og fjármálaáætlun. Nú hefur hæstv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra sagt að það þurfi að vanda sig og rétt sé að fara varlega. Það hefur reynst erfitt að fá inn raunverulegan erlendan banka í íslenskt fjármálakerfi. Ef við þurfum að vera mjög þolinmóð þurfum við kannski að velta þeirri spurningu upp: Hvernig ætlum við að sjá þetta fjármálakerfi? Þurfum við ekki áður en við förum í þá sölu að búa til það kerfi hér á landi, hvernig kerfið á að vera, aðskilja viðskipta- og fjárfestingarhluta ef það er skynsamlegasta niðurstaðan eftir skoðun og aðra þætti, hversu stórt bankakerfið eigi að vera? Hverjir eru hæfir sem eigendur í bankakerfi á Íslandi?

Mikilvægast af öllu er að upplýsa það sem gerst hefur en draga lærdóm af því svo að við getum með einhverjum hætti tryggt að það gerist ekki aftur.