146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um kaup í Búnaðarbankanum.

[11:40]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Á blaðamannafundi í gærmorgun lýsti Gylfi Magnússon því yfir að fléttan sem notuð var til að blekkja stjórnvöld hafi verið of ævintýraleg til að hún hefði þótt trúverðug í reyfara og hefði líklega verið hafnað af útgefendum fyrir vikið. Það er rétt að í skýrslunni birtist óvenjumikil siðblinda og gróðafíkn sem leiddi á endanum til skelfilegra atburða, ekki þó fyrir aðalleikarana sjálfa, nýir eigendur bankans léku sér nefnilega eins og óvitar að eldspýtum sem leiddi loks til falls viðskiptabanka á fáum árum. Afleiðing þess fyrir heimili og almenning er öllum kunnug en verður ekki sagt frá því nógu oft. Krónan hrundi, verðbólga fór úr böndum, atvinnuleysi mældist í tveggja stafa tölu. Ísland lagðist inn á gjörgæsludeild AGS og landið var í höftum þangað til í síðustu viku. Margir Íslendingar eiga enn um sárt að binda og velferðarkerfi landsins er enn veikara fyrir vikið. Það er því ansi kaldhæðnislegt að skýrslan skuli opinberuð nánast á sama tíma og höftum er aflétt og bankasalan fer aftur af stað. Bling. Hringnum er lokað. Viljum við nokkuð fara aðra leið í þessari hringekju? Ég held ekki.

Það er því ekki skrýtið þó að það hafi hríslast um mann nettur aumingjahrollur þegar forsætisráðherra fagnaði barnslega sölu Arion banka til vogunarsjóða nýlega. Nú fer hann með löndum þegar um er að ræða frekari rannsókn á einkavæðingu bankanna upp úr aldamótum. Hann virðist ætla að halda áfram að hundsa þingsályktun þess efnis, sem þingmenn Samfylkingar, VG og Hreyfingarinnar samþykktu árið 2012. Þó er gott að vita að hv. fjármálaráðherra hafi kveðið skýrt upp úr með það að slíkt eigi að rannsaka, en það sýnir hvað þeir frændur eru ósamstiga um margt.

Þetta mál minnir okkur rækilega á það sem hefur verið margítrekað úr þessum ræðustól síðustu vikur við misjafnar undirtektir. Við verðum tafarlaust að ráðast í og ljúka vandaðri vinnu á því hvernig fjármálakerfi við viljum byggja upp til framtíðar og hverjir geta talist heppilegir eigendur banka. Þessu þarf að ljúka áður en bankarnir tveir sem ríkið á verða seldir.

Raunar birtist í fyrirhugaðri bankasölu athyglisvert ósamræmi milli stjórnarliða. Á meðan hæstv. fjármálaráðherra fullyrðir að ekkert liggi á að selja bankana segir hv. formaður fjárlaganefndar í umræðu um fjármálastefnu að það verði gert á þessu kjörtímabili. Þessi hringlandaháttur skapar ekki traust á leiðinni fram undan, sýnir hve ósamstiga ríkisstjórnin er og hve illa hún heldur í raun á þessu máli.

Herra forseti. Það verður tafarlaust að ráðast í rækilega rannsókn á einkavæðingarferlinu fyrir hrun og líka tengslum viðskiptamanna við stjórnarflokka þess tíma, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Þrálátur orðrómur er nefnilega um að helmingaskiptaflokkarnir hafi deilt bönkunum á milli sín rétt eins og grunur lék á að aðkoma Hauck & Aufhäuser hafi verið málamyndagjörningur og spyrjið hv. þm. Vilhjálm Bjarnason um það.

Skýrslan sem var kynnt í gær dregur upp spurningar um sinnuleysi stjórnvalda, stofnana og endurskoðenda í einkavæðingarferlinu og eftirmálum þess. Þeim verður að svara. Enn er aftur minnst á það að það er undarlegt að hæstv. forsætisráðherra telji að ekki þurfi að rannsaka málið frekar.

Herra forseti. Nú stendur yfir vika sem er helguð fjármálalæsi ungs fólks um allan heim. Hún stendur til 2. apríl, þegar nemendur úr Háteigsskóla aðstoða Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra við að hringja inn opnun markaða í Kauphöllinni. Þetta verður eflaust fallegt og einstaklega myndrænt slútt á þessari viku. Ég ætla þó að skora á ríkisstjórnina að veita ríflegt fjármagn til siðfræðikennslu allra barna í grunn- og framhaldsskólum því að ég er sannfærður um að slíkt er ekki síður líklegt til að koma borgurum og bankamönnum framtíðarinnar að gagni og stuðla að betra siðferði og heilbrigðara fjármálaumhverfi.