146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um kaup í Búnaðarbankanum.

[11:59]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa góðu skýrslu sem rannsóknarnefnd skilar um þátttöku Hauck & Aufhäuser í einkavæðingu Búnaðarbankans. Það er í raun og veru merkilegt að lesa þessa atburðarás alla saman og það sem kemur fram frá því í byrjun þegar S-hópurinn og Ólafur Ólafsson flagga því að þau hafi erlendan fjárfesti í sigtinu og fram kemur í fundargerð framkvæmdanefndar um einkavæðingu að fremur væri gefinn plús fyrir erlenda peninga, sem þar af leiðandi gaf þessum hópi forskot í að verða sá aðili sem fengi að kaupa bankann. Síðan er þar rakið hvernig þessi erlendi fjárfestir skipti alltaf máli, virðist vera, í öllu þessu ferli og fram kemur í skýrslunni að einkaviðræður við S-hópinn yrðu ákveðnar til tiltekins takmarkaðs tíma og að framkvæmdanefndin yrði treg til að framlengja einkaviðræður ef hún teldi Société Générale eða annan alþjóðlegan fjárfesti ólíklegan til að eiga umtalsverðan hlut í eignarhaldsfélagi um tilboðið og hvernig hópurinn ákveður síðan þegar í ljós kemur að Société Générale ætlar sér ekki að verða fjárfestir heldur eingöngu gegna ráðgjafarhlutverki og finnur fyrir S-hópinn þennan þýska sveitabanka, svo vitnað sé til góðra manna, Hauck & Aufhäuser, til þess að verða málamyndaaðili í öllum þessum gjörningi sem síðar skilaði ómældum persónulegum hagnaði til þeirra aðila sem þarna sátu við borðið.

Þarna var blekkingum beitt og það kemur svo skýrt fram hér. Það er mikilvægt fyrir okkur sem hér stöndum nú að það liggur fyrir af opinberum gögnum að ítrekað hafi komið fram efasemdir í fjölmiðlum og opinberri umræðu um það hvort aðkoma Hauck & Aufhäuser hafi verið með þeim hætti sem gefið var til kynna. Slík umræða kom fram á vettvangi Alþingis í fyrirspurnum þáverandi þingmanna stjórnarandstöðunnar, Lúðvíks Bergvinssonar og Ögmundar Jónassonar. Þetta kom fram í athugasemdum Vilhjálms Bjarnasonar, núverandi þingmanns. Enn fremur kemur fram í skýrslunni að þær athugasemdir voru afgreiddar af eftirlitsstofnunum eins og ekkert hefði í skorist. Þess vegna er svo mikilvæg að við tökum þessi mál öll til gagngerrar skoðunar, því að það dugir ekki að vitna til þess að margar rannsóknir hafi farið fram þegar í ljós kemur að þær voru ekki fullnægjandi, að eftirlitsstofnanirnar luku ekki því verki sem þeim var falið heldur voru athugasemdirnar afgreiddar sem hjóm eitt. Nú kemur í ljós að allt var þetta málamyndagjörningur, blekkingum var beitt í því skyni fyrir tiltekna aðila að hagnast á því þegar almannaeigur voru seldar.

Það eru staðreyndir málsins sem fyrir okkur liggja, herra forseti. Þessi skýrsla kallar annars vegar á að rannsókn á öllu einkavæðingarferlinu verði lokið, eins og við ræddum í óundirbúnum fyrirspurnartíma áðan, en hún kallar líka á það að við skoðum mjög vel hvernig við ætlum að byggja hér upp fjármálakerfi til framtíðar, því að fjármálakerfið er órjúfanlegur hluti þessa samfélags. Við getum ekki boðið upp á það, Alþingi Íslendinga, að samfélagið verði áfram gegnsýrt af tortryggni og grunsemdum gagnvart því kerfi sem á í raun að vera þjónustuaðili fyrir almenning og atvinnulíf í landinu. Það gengur ekki. Þannig verður það hins vegar ef við ljúkum þessum málum ekki með eðlilegri rannsókn og um leið förum yfir stöðuna núna, hvernig lög og reglur eru, hvernig þeim hefur verið breytt og hvort það er fullnægjandi og hvort þeim er fylgt eftir með nægjanlegum hætti.

Eða ætlum við að sætta okkur við að eignarhald íslenskra fjármálafyrirtækja verði á aflandssvæðum? Er það eitthvað sem er hægt að bjóða íslensku samfélagi upp á þegar við lesum um afleiðingar þess fyrir nokkrum árum? Þetta er verkefnið, að gera upp þessa fortíð, loka þessum málum með einhverjum hætti og sýna þannig að samfélagið geti haldið áfram og skilið við þessi mál, að við ætlum ekki að láta þetta gerast aftur.

Þess vegna er það ekki í boði að ráðist verði í frekari einkavæðingu á bankakerfinu fyrr en þessari rannsókn hefur verið lokið og við erum fullviss um að lög og regluverk, eftirlitsstofnanir og stjórnvöld geti staðið vaktina þegar kemur að því að ákveða framtíð fjármálakerfisins. Þetta er verkefnið sem fyrir okkur liggur. Annað er ekki boðlegt fyrir íslenskt samfélag. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)