146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um kaup í Búnaðarbankanum.

[12:05]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Við erum með þessa fínu skýrslu hérna sem varpar ljósi á það sem ég myndi kalla einn stærsta glæp aldarinnar fram til þessa. Hún sýnir einbeittan brotavilja, vítavert skeytingarleysi stjórnvalda, undirstrikar það algera siðferðishrun sem einkavæðing bankanna var. Og hún stendur sem skær viðvörun um hvernig mun fara ef við önum áfram á sömu braut á ný eins og núverandi ríkisstjórn hefur lagt línurnar varðandi sölu bankanna enn á ný.

Það er áhugavert að heyra hvernig frásagnirnar af þessu hafa verið. Margt áhugavert kom fram í máli hv. þm. Vilhjálms Bjarnasonar, sem á miklar þakkir skildar fyrir að hafa vakið athygli á því máli sem var þessari skýrslu til grundvallar á sínum tíma, en ég er hjartanlega ósammála honum þegar hann segir að regluverkið hafi verið í lagi á þeim tíma. Ef það hefði verið í lagi á þeim tíma hefði þetta kannski ekki gerst. Það má minnast á að í þessu samhengi er þetta mynstur, nákvæmlega þetta ferli, hvernig þessi einkavæðing átti sér stað, ekki einsdæmi sem átti sér bara stað hérna á Íslandi. Það hafa nákvæmlega sams konar einkavæðingarferli með nákvæmlega sams konar feluleikjum og blekkingum átt sér stað í mörgum öðrum löndum. Ég gæti þulið upp nokkur dæmi en læt það ógert. Ljóst er að regluverkið er ekki bara ónýtt hér á Íslandi heldur víðast í heiminum.

Eftir þessa skýrslu, sem ég er að vísu ekki búinn að klára að lesa enn þá en kominn langt á leið, liggur ein mikilvæg spurning og hún er: Hver er eða var eigandi að Dekhill Advisors Limited, fyrirtæki sem er skráð á Bresku Jómfrúreyjunum, alræmdu skattaskjóli? Við verðum að gera okkur grein fyrir að blekkingar af því tagi sem um ræðir eru ekki mögulegar nema vegna þess að engin leið er til að vita hver sannleikurinn er. Það er aðeins ein leið til að tryggja að svona lagað geti ekki gerst aftur, það er að tryggja gagnsæi á eignarhaldi á fyrirtækjum. Það að eiga fyrirtæki er ekki einkamál nokkurs manns. Það er samkomulag við samfélagið um að fá ákveðnar takmarkanir á ábyrgð í skiptum fyrir uppbyggilega og heiðarlega þátttöku í hagkerfinu. Gagnsæi í eignarhaldi kemur ekki bara stjórnvöldum við. Aðhald gegn því að eignarhaldi sé ekki misbeitt gegn samfélaginu kemur ekki síst frá samfélaginu sjálfu, m.a. fjölmiðlum og ýmsum öðrum aðilum.

Píratar hafa lagt fram frumvarp sem tryggir að allir eigendur banka eigi að sæta þessum gagnsæisreglum, það séu ekki bara þeir sem eiga meira en 10%. Þá er ekki hægt að skýla sér á bakvið 9,99% eins og einhverjir eru nú að reyna að gera. Jafnt á að gilda um alla sem á annað borð hafa möguleika á að kaupa banka. Píratar hafa einnig lagt fram frumvarp sem tryggir öllum jafnt aðgengi að upplýsingum úr fyrirtækjaskrá. Öllum. Óháð efnahag og aðstæðum. Að allir komist í þessi gögn. Þetta eru alger grundvallaratriði, en þetta er ekki nóg. Auðvald heimsins hefur um áratugaskeið byggt upp stórspillt net fyrirtækja á heimsvísu sem í skjóli alþjóðlegrar samvinnu um að leyfa óvinum samfélagsins að fela eignir og stinga undan — þetta er orðið til. Rúmlega 14% af heildarauði heimsins hefur flotið í gegnum skattaskjól og þannig nýst fjárglæframönnum eins og Ólafi Ólafssyni sem veigra sér ekki við að skapa aðstæður þar sem heilu löndin geta farið á hausinn.

Ísland þarf í alvöru núna að fara að nýta þetta tækifæri til að skilja að það er ekki og verður aldrei nóg að horfa upp á heiminn brenna og skrifa svo bara skýrslu um það. Við eigum að nota þennan lærdóm til að fara í heilagt stríð gegn skattaskjólum og leyndarhyggju í fjármálakerfinu. Við eigum að byrja á því að opna fyrirtækjaskrá, algerlega upp á gátt, ásamt hluthafaskrá og ársreikningaskrá. Við eigum að setja þungt árlegt leyndargjald á þau fyrirtæki hvers eignarhaldskeðjur enda ekki í nafngreinanlegum einstaklingum sem eru sannarlega til. Og við eigum að skylda samdægurs þinglýsingu og skráningu á sölusamningum á hlutum í fyrirtækjum að viðlagðri ógildingu samnings. Þetta, allt þetta, ásamt þrýstingi okkar á önnur lönd að gera það sama, væru rétt viðbrögð við þessari skýrslu og hefðu verið rétt viðbrögð við upprunalegri rannsóknarskýrslu Alþingis frá 2010.

Það sem við eigum alls ekki að gera er að rjúka í taumlausa vanhugsaða einkavæðingu á bönkunum aftur. Við eigum ekki að mata djöful nýfrjálshyggjunnar með andfélagslegum stefnurekstri í ríkisfjármálum og ekki að una við að leyfa manni að sitja sem forsætisráðherra Íslands sem hefur beinlínis haft hag af umræddri leyndarhyggju og dirfist svo segja að það þurfi ekki að rannsaka neitt fleira.

Staðan er einfaldlega þannig að við höfum enn á ný fengið skýrslu sem sýnir að glæpsamlegir atburðir áttu sér stað í byrjun þessarar aldar. Þessir glæpsamlegu atburðir munu gerast aftur og aftur og aftur þar til við tökum á þessu með almennilega skýru regluverki sem hleypir ekki neinu rugli í gegn.