146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um kaup í Búnaðarbankanum.

[12:11]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Það verður að segjast eins og er að þegar maður hélt að fátt gæti komið manni á óvart í samskiptum peningamanna við umhverfi sitt dúkkuðu upp stórfelld svik í kringum sölu á Búnaðarbankanum. Það er ónotalegt til þess að vita að til séu menn sem skuli finna sér sérstaka þægð í því að hafa rangt við. Ekki þar fyrir, mannskepnan hefur alltaf haft lag á að reyna að bjarga sér en fyrr má nú vera að blekkja stjórnvöld, kjörna fulltrúa og almenning, allt til þess að geta skarað eld að eigin köku. Að sjálfsögðu má hafa um þetta framferði mörg orð og ekki öll falleg.

Hæstv. forseti. Ég hygg að við verðum þrátt fyrir allt að reyna að draga lærdóm af því sem gerst hefur og vanda betur til verka í framtíðinni. Staðan á íslenskum bankamarkaði nú er ekki ósvipuð og hún var fyrir einkavæðingu. Bankakerfið er að miklu leyti í höndum ríkisins. Núverandi stjórnarflokkar telja mikilvægt að losa um þetta eignarhald og kemur það fram í drögum að eigandastefnu, sem birtist á vef fjármálaráðuneytisins, að stefnt skuli að sölu á öllu hlutafé í þremur fjármálafyrirtækjum og stórum hluta í því fjórða, Landsbankanum.

Þegar skýrsla sú sem gerð var opinber í gær og nýleg sala á stórum hlut í Arion banka er höfð í huga er ekki alveg laust við að grunur vakni um að sagan gæti endurtekið sig.

Hæstv. forseti. Það er hlutverk okkar hér á Alþingi að standa vörð um hagsmuni almennings. Það kann að vera að á köflum þyki sumum okkur ekki hafa tekist allt of vel upp. Skýrslan frá í gær rennir stoðum undir þá skoðun. Á hitt verður þó að líta að yfirvöld þess tíma studdust við það sem kallað er óháðir sérfræðingar og menn báru fullt traust til. Það leysir þó ekki stjórnvöld undan ábyrgð á því sem gerðist. Sú óþægilega niðurstaða sem eftir situr er að í heimi peningamanna virðist fáu og fáum treystandi. Þeir virðast hafa þá sýn á heiminn að þeirra veröld sé óháð þeirri sem almenningur lifir, allt sé heimilt, allt sé falt, bara passa upp á ekkert komi fram í dagsljósið sem óþægilegt kann að þykja. Þá reynir á að yfirvöld standi í lappirnar og ekki bara þá heldur alltaf.

Nú þegar þessi skýrsla liggur fyrir ætti það að vera núverandi stjórnvöldum og Alþingi áminning um hvar ábyrgðin á almannahagsmunum liggur. Hún liggur ekki hjá þeim sem vilja kaupa banka, hún liggur hjá stjórnmálamönnum. Hún liggur hjá þeim sem þjóðin hefur kosið til að gæta hagsmuna sinna.

Hæstv. forseti. Það er illt til þess að vita að traust virðist vera af skornum skammti. Skýrsla um svik og blekkingar bætir ekki úr skák. Sala á verðmætum í eigu almennings er vandmeðfarin. Við stöndum í sambærilegum sporum nú og við gerðum fyrir einkavæðingu. Stjórnvöldum ber að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig. Stjórnvöldum ber að grennslast fyrir um það hverjir eru raunverulegir eigendur mikilvægra stofnana í samfélagi okkar.

Hæstv. forseti. Því miður virtist það lýsandi fyrir andvaraleysi sem ríkir í ranni núverandi ríkisstjórnar að hæstv. forsætisráðherra virtist sérlega kátur á dögunum með kaup erlendra aðila á nær 30% hlut í Arion banka. Þó veit hann ekki, frekar en aðrir, hverjir nýir eigendur eru nákvæmlega né hver framtíðarstefna þeirra er. Þetta hljómar óþægilega kunnuglega. Það er full ástæða til að ljúka rannsókn á einkavæðingu bankanna.