146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um kaup í Búnaðarbankanum.

[12:15]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Það eru stór orð að segja þjóðin að hafi verið blekkt þegar Búnaðarbankinn var seldur. Einkavæðing bankanna og vöxtur þeirra í kjölfarið var rót hrunsins og við erum enn að glíma við slæmar afleiðingar þess. Margir hafa getið sér til um einmitt það að um blekkingar hafi verið að ræða en ekki sannreynt fyrr en nú. Hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason gerði athuganir á sínum tíma á reikningum þýska bankans og benti á að ekkert væri þar að finna um að bankinn hafi verið raunverulegur kaupandi Búnaðarbankans. Vilhjálmur hélt því fram að um blekkingar væri að ræða. En viðbrögðin þá voru þau að athuganir hans voru gerðar tortryggilegar. Jóhanna Sigurðardóttir og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar kölluðu oft eftir athugunum á stjórnsýsluháttum þegar bankarnir voru einkavæddir og efuðust um gæði þeirra. Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, hafði ásamt fleiri stjórnarandstöðuþingmönnum efasemdir um raunverulega þátttöku þýska bankans í kaupunum og spurði þáverandi viðskiptaráðherra um það. Ögmundur fékk skriflegt svar í febrúar 2006 frá Fjármálaeftirlitinu á þann veg að stofnunin teldi að ekkert benti til annars en að þýski bankinn hefði verið hluthafi í Eglu hf. Efasemdum og grun um blekkingar og slæma stjórnsýslu í aðdraganda einkavæðingarinnar og í kjölfar hennar var ýtt ákveðið til hliðar, m.a. af ráðherrum, Ríkisendurskoðun og Fjármálaeftirlitinu. Í því ljósi er niðurstaða rannsóknarinnar sérstaklega sláandi um að eignarhald þýska bankans á hlutum í Eglu hf. og þar með í Búnaðarbankanum hafi aðeins verið að nafninu til og til málamynda og yfirvarp fyrir endanleg yfirráð, áhættu og ávinning annarra aðila.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um fall íslensku bankanna kemur fram að S-hópnum hafi verið greint frá því í ágúst 2002 að við val á kaupanda Búnaðarbankans yrði gefinn plús fyrir erlenda peninga, eins og það var orðað. Erlendur hluthafi í Eglu hf. er kynntur til sögunnar stuttu síðar og S-hópurinn komst upp með að gefa óljósar upplýsingar um erlenda eigandann og athuganir sem voru gerðar voru óformlegar. Hvers vegna voru blekkingarnar mögulegar? Hvers vegna var ekki gengið harðar eftir upplýsingum um aðkomu og fjármögnun þýska bankans sem öllum var ljóst af umræðum í fjölmiðlum og við ráðamenn að skipti miklu máli við mat á kaupendum? Hvernig gat þetta gerst?

Alþingi samþykkti haustið 2012 þingsályktun sem flutt var af þingmönnum Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Hreyfingarinnar undir forystu Skúla Helgasonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um að ráðast í rannsókn á einkavæðingu allra bankanna þriggja. Þeirri samþykkt hefur ekki verið fylgt eftir en á auðvitað að gera og á að hefja þá rannsókn eins fljótt og auðið er, því að sagan má ekki endurtaka sig.