146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um kaup í Búnaðarbankanum.

[12:18]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Herra forseti. Það er vont að vera plataður og það eru vonbrigði að komast að því að leynd hafi verið um vissa þætti í því máli sem um ræðir. Það er vont, ekki síst því að það grefur undan því trausti sem nauðsynlegt er öllu kerfinu sem er grunnurinn að samfélaginu og fjármálakerfinu þá ekki síst, fjármálakerfi sem þrátt fyrir margt sem betur má fara er nauðsynlegt fyrir hagsæld landsins og almannahag.

Ef mistök eru gerð eru þau dýrmæt tækifæri til að læra. Það á einnig við ef í ljós kemur að mistök hafi verið gerð í þessu máli, ekki endilega til að taka U-beygju úr kerfi sem í grunninn er mikilvægt samfélaginu heldur til að reyna að leita jafnvægis þess sem mistökin kenna okkur. Þrátt fyrir að í því samhengi sé nauðsynlegt að líta yfir farinn veg ætti fyrst og fremst að láta mistökin verða steinana til að varast á leiðinni fram á við.

Stjórnendum fyrirtækja er sett það markmið að hámarka hag hluthafa. Okkur hér er sett það markmið að hámarka hag fólksins í landinu. Til þess stend ég hér og segi því, alveg eins og stjórnandi í fyrirtæki myndi segja, að af þessu skal læra svo að nauðsynlegt traust skapist til að halda úti kerfi til að búa eins vel í haginn fyrir almenning og mögulegt er. Þegar t.d. verður farið í að losa um eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum höfum við traustan og gegnsæjan lagagrundvöll til að byggja á til að um þá skynsamlegu gjörninga ríki sem mest sátt.

Á þessu stigi málsins er brýnt að halda til haga að þrátt fyrir að þessi leyndarangi málsins liggi að því er virðist ljós fyrir eru aðrir þættir málsins um kröfur, áhrif og afleiðingar enn ekki að fullu skýrir. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur það hlutverk að taka skýrslur rannsóknarnefnda til umfjöllunar og gefa Alþingi skýrslu. Við nefndarmenn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd höfum því það hlutverk að fara yfir aðkomu stjórnvalda við þessa sölu, hverjar kröfurnar voru, innan hvaða regluramma o.s.frv. Sú vinna er eftir. Sem nefndarmaður í þeirri nefnd tek ég að lokum undir með formanni nefndarinnar, hv. þm. Brynjari Níelssyni, að til að virða það hlutverk hef ég engar frekar skoðanir að sinni um þetta mál þar til sú vinna hefur átt sér stað.

Að því sögðu þarf enginn að velkjast í vafa um að það er fullur vilji, skilningur og stuðningur við þá nauðsynlegu vegferð að gera þetta mál svo úr garði að hægt sé að læra, laga og leiða áfram til að skapa hér nauðsynlegt traust.