146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[12:42]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanninum aldeilis ágæta ræðu. Ég er sammála mörgu af því sem kom fram í máli hans. Mig langar til að spyrja hv. þingmann um orð hans er varða fyrirhugaða sölu á ríkiseignum. Eins og hv. þingmaður hef ég töluverðar áhyggjur af þeim fyrirætlunum núverandi ríkisstjórnar. Skyldi kannski engan undra sem fylgst hefur með umræðum hér í dag og raunar lesið skýrsluna sem kom út í gær.

Það sem fyrirhuguð sala er að nokkru leyti forsenda umræddrar fjármálastefnu eins og hún er lögð fram skyldi maður ætla að það væru allnokkur tíðindi að hæstv. fjármálaráðherra boði enn meiri varkárni, jafnvel rannsóknir á því sem þegar hefur verið gert, og lærdóm af því sem verði dreginn um áframhaldandi aðgerðir í þeim efnum. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann aðeins nánar út í hvort hann telji og sé sammála mér í því að það þurfi einfaldlega að setja stopp og skoða málin í ljósi þeirra upplýsinga sem nú hafa komið fram og rannsókna áður en stigin verði nokkur frekari skref í þeim efnum og hvort það þýði þá ekki einfaldlega að þessi fjármálastefna hæstv. ríkisstjórnar sé fallin um sjálfa sig, því að þetta er jú grunnforsendan fyrir því að hún gangi upp.