146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[13:48]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Svo það sé sagt er ég í sjálfu sér ekki á móti skattahækkunum. Ég er ekki að segja að hv. þingmaður sé það heldur. Ég hef litið á það sem hlutverk ríkissjóðs að sjá um samneysluna okkar. Til hennar þurfum við að afla fjár. Ég er á því að skattkerfið eigi ekki eingöngu að vera tekjuöflunartæki heldur líka tekjujöfnunartæki. Ég hef litið svo á að það ætti að beita því einnig þannig, sem gengur þvert á yfirlýsta stefnu hv. ríkisstjórnar, yfirbreiðslustjórnarinnar sem hv. þingmaður kom inn á.

Mér finnst athyglisvert það sem hv. þingmaður segir um virðisaukaskattinn. Í umræðum hér á dögunum kom hæstv. fjármálaráðherra inn á að hann sæi fyrir sér eitt virðisaukaskattsþrep sem yrði einhvers staðar á milli þeirra þrepa sem nú eru við lýði, sem myndi þýða hækkun á virðisaukaskatti á ýmsar nauðsynjavörur sem við þurfum öll jafnt, sama hvað við erum með í laun. Ég komst reyndar ekki sjálfur á aðalfund Samtaka atvinnulífsins í gær en sá ekki betur í fréttum en að hæstv. forsætisráðherra væri að boða slíkt hið sama.

Þarna erum við komin að raunverulegri pólitík. Um það hvernig skattkerfið eigi að vera byggt upp, hver eigi að vera tilgangur þess. Ég er sammála hv. þingmanni þegar hv. þingmaður er sammála mér um að það eigi að kalla hlutina réttum nöfnum. Ef á að fara í skattahækkanir sem geta verið í einhverjum tilvikum nauðsynlegar eigi bara að kalla þær það.