146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[14:00]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Ég ætla að koma hérna upp og ræða aðeins þessa fjármálastefnu út frá mínu áhugasviði og mínum skilningi á heiminum og hugmyndafræði. Frá unga aldri hef ég alltaf haft þá hugmynd að við getum breytt þessu samfélagi til hins betra þannig að þetta sé samfélag fyrir alla en ekki fáa. Við erum rúmlega 300 þús. manna þjóð sem búum á landsvæði sem er krökkt af náttúruauðlindum, ein ríkasta þjóð í heimi, nóg til að hreinu vatni, nóg til af hreinni orku. Við gætum verið mun sjálfbærari á mörgum öðrum svæðum, eins og t.d. í matvælaframleiðslu, ef það væri stefnan. Pólitíkin er því miður ekki þar. Það hefur kannski með það að gera hver hugmyndafræðin hefur verið seinustu ár og áratugi á bak við lagagerð og stefnur í þessu landi.

Í þeirri gnægt sem við lifum við er allt of mikið af fólki sem býr við fátækt. Það eru börn sem alast upp við skort og njóta ekki þeirra tækifæra og þar af leiðandi þeirra réttinda sem eiga að þykja sjálfsögð í samfélaginu okkar. Við ættum að geta búið þannig um hnútana að allir hefðu slík tækifæri og réttindi. Ég skil ekki af hverju við erum ekki þar. Það er mér óskiljanlegt.

Það er fjöldinn allur af fólki sem er að kikna undan álagi, kvíða, tómleika, þunglyndi, einmanaleika og svo má áfram telja. Börn sem og fullorðnir leiðast út í neyslu vímuefna til að vinna úr tómleikanum. Það er fjöldinn allur af fólki sem höndlar ekki lífið, finnur engan tilgang. Ég skil það svo vel vegna þess að ég hef verið þar. Það er erfitt fyrir hópdýr eins og okkur manneskjuna að finna tilgang í einstaklingshyggju frjálshyggjunnar. Hver er tilgangurinn? Af hverju erum við hérna?

Það er fólk sem hefur það gott, það er alveg rétt, en það er eins og við áttum okkur ekki á almennilega á þeim keðjuverkandi áhrifum sem fátækt annarra hefur á samfélagið allt, á lýðræðið, á umhverfið og þar af leiðandi á okkur öll. Við megum ekki leyfa okkur að hverfa inn í einstaklingshyggjuna og aftengjast heildinni. Við erum öll hér saman og aðstæður mismunandi hópa hafa áhrif á okkur, sérstaklega ef við horfum til langs tíma. Við erum að horfa fram á neyðarástand í umhverfismálum, í loftslagsmálum. Það er ekki hægt að ætlast til þess að einstaklingar í samfélaginu sem lifa frá degi til dags eða frá viku til viku eða frá mánuði til mánaðar til þess að ná endum saman hafi í raun og veru getu til að horfa fram á veginn og sjá stóru myndina. Við verðum að vinna saman sem heild og passa upp á að allir standi jafnfætis þannig að við getum saman tekið á stórum málum í heiminum.

Þetta er nákvæmlega hugmyndafræðin sem umrædd stefna byggir á, þ.e. ekki þeirri sem ég var að tala um heldur þeirri hugmyndafræði að grafa undan sameiginlegum kerfum með því að fjársvelta þau og svo einkavæða. Það á að selja ríkiseignir til að greiða upp skuldir en ekki byggja upp innviði. Það er stefnan. Það eru menn sem eru talsmenn fyrir því, eða einn sérstaklega sem hefur verið í fjölmiðlum undanfarið, talsmaður Sjálfstæðisflokksins, að lækka veiðigjaldið. Á meðan meginþorri Íslendinga vill fá meira út úr auðlindunum sínum, meiri arð út úr auðlindunum er talað fyrir því að lækka veiðigjaldið og afnema erfðaskatt, sem er eitt besta jöfnunartól sem við höfum. Þetta eru stórfurðulegar áherslur, sérstaklega með það í huga hvert við stefnum, ekki bara Ísland heldur heimurinn allur. Við verðum að horfa á heildarmyndina.

Þetta er sláandi niðurstaða, einkum þegar við hugsum til þess hvernig samfélagið okkar gæti litið út. Við erum svo fá hérna og tækifærin eru mörg. Við getum gert stórkostlega hluti ef við höfum hugmyndaflug og þor til að prufa eitthvað nýtt, gera eitthvað öðruvísi. Við þurfum ekki að elta aðrar þjóðir. Við höfum sjálfstæði. Við höfum sjálfstæðan gjaldmiðil. Við höfum í raun og veru svo mörg tækifæri til að prufa nýja hluti og vera óhrædd.

Það var í febrúar sem niðurstöður MMR-könnunar sýndu fram á að meiri hluti þjóðarinnar telur Ísland vera á rangri braut vegna spillingar í fjármálum, stjórnmálum, félagslegs ójöfnuðar og hnignunar velferðarkerfisins, siðferðisins og menntunar. Þetta er dálítið sláandi niðurstaða. Ef ég væri í ríkisstjórn hefði ég sest niður og hugsað minn gang og spurt mig: Hvar erum við þegar meiri hluti þjóðarinnar er farinn að tala um að þetta sé vandamál, að Ísland sé á rangri braut?

Þessi fjármálastefna boðar ekki nýja leið. Þetta er ekki nýja leiðin sem Íslendingar vilja sjá. Þetta er, með leyfi forseta, „business as usual.“ Og meginþorri almennings verður undir. Það er ljóst.

Forseti. Ég sakna þess að hafa ekki heyrt í þessari umræðu frá hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. velferðarráðherra og í raun og veru frá öllum ráðherrum varðandi þessa stefnu. Mig skortir upplýsingar um hvaða áhrif hæstv. ráðherra telja að stefnan eigi eftir að hafa á málaflokka þeirra. Sú umræða hefur ekki átt sér stað. Telja hæstv. ráðherrar að þeir eigi eftir að geta farið í þá nauðsynlegu uppbyggingu sem þjóðin hefur kallað eftir og flokkar þessara ráðherra hafa lofað fyrir kosningar eða alla vega lagt áherslu á? Ég veit að það er mismunandi skilningur á því hvað telst vera loforð. En góðu fréttirnar eru að stefnan er ekki meitluð í stein. Mér skilst að ný ríkisstjórn geti komið með nýja stefnu og það þurfum við að hafa í huga. Ég hvet þá sem vilja byggja upp annars konar samfélag en þessi stefna rammar inn til að fjölmenna og krefjast þess að samfélagið taki nýja stefnu, krefjast þess að ný ríkisstjórn taki við, þorum að gera eitthvað nýtt, eitthvað róttækt. Kollsteypur eru velkomnar.