146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[14:13]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skemmtilega spurningu. Það er eitt aðaláhugamál mitt hvernig við getum útrýmt fátækt og mér finnst alltaf gaman að svara fyrir það og ræða það. Ég hef lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að við skoðum möguleikana á að greiða öllum Íslendingum laun óháð vinnu eða aftengja laun við vinnu. Þetta er hugmynd sem ég hef líklegast ekki tíma til þess að útskýra nægilega vel hérna. Að sjálfsögðu þurfum við að passa upp á að arður af auðlindum okkar dreifist jafnt á alla þannig að allir hafi sömu tækifæri, vegna þess að það er ekki hægt að tala um réttindi án þess að tala um tækifæri. Ef fólk hefur ekki tækifæri til að nýta sér réttindi eru réttindin aðeins sýndarleikur. Þá eru þau ekki til staðar. Þá eru þau einungis falleg orð á blaði, eins og í fjármálastefnunni, þessi fallegu orð um sjálfbærni og ég veit ekki hvað.