146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[14:14]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Falleg orð á blaði. Stjórnmálamenn, ég er víst einn þeirra, ég þarf að fara að byrja að hugsa um mig þannig, það er ekki seinna vænna, okkur hættir nefnilega oft til að strá um okkur með fallegum orðum, sérstaklega þegar að því kemur að við þurfum að fá eins og nokkur atkvæði frá kjósendum sem við erum að tala til. Þessi fjármálastefna sýnir svart á hvítu að kosningaloforð hæstv. ríkisstjórnarflokka voru ekki pappírsins virði, þótt það sé ekki meiri pappír en undir þessa fjármálastefnu því að ekki er hún stór. En hér t.d. talaði hæstv. fjármálaráðherra áðan, stráði um sig fallegum orðum um að vanda vel til þegar kæmi að næstu einkavæðingarhrinu, sem er einmitt verið að boða, og þingheimur tók andköf af ánægju. En það er ekki að sjá á fjármálastefnunni að grípa eigi til sérstakra aðgerða í ljósi breyttrar stöðu eða nýrra upplýsinga eða eitthvað um að fá okkur belti, axlabönd, (Forseti hringir.) keðjur og var það ekki steypuklumpur sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon boðaði sem megingjarðir utan um sig þegar kæmi að því að fara í einkavæðingu? (Forseti hringir.) Þetta snýst allt um útgjaldahliðina, varkárnin, hjá hæstv. ríkisstjórn.