146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[14:21]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Almenningsályktunartillögur, ég fíla þetta nýyrði og tek undir það að við eigum að hafa slíkt kerfi. Að sjálfsögðu þarf almenningur að koma meira að ákvarðanatöku. Ég veit ekki hvernig væri best að fara að því. En það að við séum ekki einu sinni að hugsa um það, að við séum ekki að ræða það almennilega hvernig við eigum að útfæra svoleiðis og hvernig við eigum að fara að því finnst mér mjög alvarlegt. Það að við séum með einstefnu á eitthvað sem þjónar okkur ekki, þjónar ekki meginþorra almennings, finnst mér alvarlegt. Hversu oft ætlum við að rekast á sama vegg án þess að breyta einhverju? Kannski er málið að þeir sem eru við völd rekast ekki á vegg. Kannski er það vandamálið. Kannski er vandamálið einhvers konar aftenging.